Innlent

Svif­ryk mælist aftur langt yfir heilsu­verndar­mörkum

Eiður Þór Árnason skrifar
Svifryk er að stórum hluta malbiksagnir.
Svifryk er að stórum hluta malbiksagnir. Vísir/Vilhelm

Styrkur svifryks var rúmlega tvöfalt hærri en heilsuverndarmörk gera ráð fyrir á mælistöð við Grensásveg í Reykjavík í morgun. Hægur vindur er í borginni, götur þurrar og búist við svipuðum aðstæðum næstu daga.

Vika er liðin frá því að síðast var varað við háum styrki svifryks í borginni. Áfram er gert ráð fyrir háum styrk svifriks og köfnunarefnisdíoxíðs í dag og í fyrramálið, einkum við umferðargötur. Eru íbúar hvattir til að skilja bílinn eftir heima á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en klukkan 10 í dag var styrkur svifryks á Grensásvegi 102 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 28 míkrógrömm á rúmmetra. 

Í mælistöðinni í Bústaðaveg/Háaleitisbraut var styrkur svifryks 104 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 14 míkrógrömm á rúmmetra. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk (PM10) eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og 75 míkrógrömm á rúmmetra fyrir köfnunarefnisdíoxíð.

Frestuðu gatnaþrifum

Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnanna og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest og veldur ertingu í lungum og öndurvegi. Uppspretta svifryks er uppspænt malbik, jarðvegsagnir, salt og sót úr útblæstri bifreiða.

Fram kemur í tilkynningu að mars og apríl hafi oft reynst erfiðir hvað svifryksmengun varðar á höfuðborgarsvæðinu og aðstæður í dag hafi ekki hjálpað til.

„Ráðgert var að þrífa götur í dag en það frestast sökum frostakafla sem nú stendur yfir. Búist er við svipuðum veðurfarsaðstæðum áfram og því lík­ur á svifryks- og köfn­un­ar­efn­is­díoxíðmeng­un einkum við um­ferðargöt­ur núna seinni partinn og í fyrramálið. Æskilegt er að sem flestir hvíli bílinn í fyrramálið og fari með öðru móti til og frá vinnu. Þannig geta þau sem eru viðkvæm í öndunarfærum og börn notið útivistar betur,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á vef Umhverfisstofnunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×