Sport

Færri áhorfendur á Super Bowl leiknum en hafa aldrei eytt meiri pening

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungur stuðningsmaður Kansas City Chiefs gæðir sér á veitingum á Super Bowl leiknum.
Ungur stuðningsmaður Kansas City Chiefs gæðir sér á veitingum á Super Bowl leiknum. AP/Mark Humphrey

Þeir fáu áhorfendur sem fengu að koma á Super Bowl leikinn á sunnudaginn ætluðu að passa upp á það að njóta dagsins.

Super Bowl leikurinn í ár fór fram á Raymond James leikvanginum í Tampa í Florída fylki.

Leikvangurinn tekur tæplega 66 þúsund áhorfendur en aðeins tæplega 25 þúsund áhorfendur voru á vellinum vegna herta sóttvarnarreglna í tilefni af kórónuveirufaraldrinum.

Það hafa aldrei verið færri áhorfendur á Super Bowl leiknum í sögunni en hann fór nú fram í 55. skiptið.

Það voru samt sem áður sett eyðslumet. Þeir áhorfendur sem mættu eyddu að meðaltali 132 Bandaríkjadölum í mat og drykk á leikvanginum og yfir 80 Bandaríkjadali í varning tengdum leiknum.

Þar erum við að tala um tæplega sautján þúsund krónur í veitingar og yfir tíu þúsund krónur í vörur, hver og einn af þessum tæplega 25 þúsund áhorfendum.

Aldrei hafa áhorfendur á Super Bowl eytt meiru að meðaltali í veitingar og varning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×