Innlent

Segja stjórn­völd ganga á bak orða sinna með frum­varpi til starfs­kjara­laga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar. Vísir/Vilhelm

Stéttarfélagið Efling telur að íslensk stjórnvöld hafi gengið á bak orða sinna um réttarbót fyrir þolendur launaþjófnaðar og brotastarfsemi á vinnumarkaði með því sem félagið kallar gagnslausar lagsetningarhugmyndir þar sem sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar séu virt að vettugi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu en lagasetningarhugmyndin sem um ræðir er frumvarp Ásmundar Einar Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, til starfskjaralaga.

Í tilkynningunni segir að samkvæmt frumvarpinu verði „þolendur launaþjófnaðar skikkaðir til að hætta eigin atvinnuöryggi áður en Vinnumálastofnun veitir þeim áheyrn í nýju og gríðarlega flóknu málsmeðferðarferli, þar sem í hverju skrefi hallar á brotaþola. Er brotaþolum meðal annars gert að undirgangast niðurlægjandi samningaviðræður um endurgreiðslu á stolnum launum við brotlegan atvinnurekanda.

Atvinnurekendur fá fullt sjálfdæmi um eigin sök í „samráðsnefnd“ og fá sjálfir að ákveða hvort sérstakur gerðardómur fjalli um mál þeirra. Lagasetningin er í algjörum sérflokki í því að fara með silkihönskum um gerendur, og gefur þeim enn ríkari undankomuleiðir en í núverandi launakröfuferli stéttarfélaganna.

Brot á fullgildum ráðningarkjörum meirihluta launafólks á almennum vinnumarkaði eru alfarið undanskilin lagasetningunni þar eð hún tekur aðeins til brota á lágmarkskjörum kjarasamninga en ekki til brota á ráðningarsamningum.“

Þá leggi málsmeðferðarskilyrði litlar skyldur á Vinnumálastofnun, til dæmis hvað varðar athugun á heildartilhögun launamála á vinnustað þar sem grunur leikur á brotastarfsemi.

Engin bótaregla sé heldur í frumvarpinu eða févíti, líkt og verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir, en slíkt gæti tryggt afleiðingar fyrir algengustu framkvæmd launaþjófnaðar á íslenskum vinnumarkaði að því er segir í tilkynningunni.

„Þess í stað er boðið upp á áðurnefnda samráðsnefnd þar sem brotlegur atvinnurekandi fær sjálfur að ákveða hvort hann endurgreiðir þau laun sem hann skuldar, jafnvel þótt launasvik séu staðfest,“ segir í tilkynningu Eflingar sem lesa má í heild sinni hér á vef félagsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.