Það virðist hafa heppnast vel og eru Bretar meðal fremstu þjóða þegar kemur að fjölda íbúa sem hafa verið bólusettir. Velgengni Breta hefur þar að auki leitt til deilna við Evrópusambandið.
Sjá einnig: ESB hættir við umdeilda ákvörðun um bóluefnisútflutning
Sky News sagði nýverið frá því að í mars og í apríl í fyrra, þegar forsvarsmenn Oxford háskólans voru að semja við bandaríska fyrirtækið Merck um framleiðslu bóluefnis þess fyrrnefnda neitaði Hancock að samþykkja samning milli fyrirtækjanna. Það gerði hann þar sem samningurinn innihélt ekkert ákvæði sem skilyrti Merck til að senda bóluefni til Bretlands.
Því endaði Oxford á að gera samning við fyrirtækið Astrazeneca.
Hancock óttaðist, samkvæmt frétt Sky, að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, myndi reyna að koma í veg fyrir að bandarísk fyrirtæki sendu bóluefni úr landi.
Þá segir miðillinn einnig að vísindamenn Oxford hafi haft áhyggjur af því að samningurinn við Merck innihéldi ekki nægilega skuldbindingu varðandi dreifingu bóluefna til fátækari landa. Hancock vildi þó tryggja Bretum bóluefni.
Endir Contagion sat í ráðherranum
Ráðherrann vísaði ítrekað til Contagion, eftir Steven Soderbergh þar sem þau Matt Damon, Kate Winslet og Jude Law eru í aðalhlutverkum.
Í þeirri myndi gengur heimsfaraldur yfir jörðina og milljónir milljónir deyja. Sá faraldur er svo stöðvaður með bóluefni en vegna skorts er ákveðið með happdrætti hverjir fá bóluefnið.
Heimildarmenn Sky segja það atriði myndarinnar hafa setið í Hancock.
„Frá upphafi var hann meðvitaður um að bóluefnið væri mjög mikilvægt og sömuleiðis það að þegar það kæmi, yrði keppni um að verða fyrstur til að útvega sér bóluefni,“ sagði einn heimildarmaður Sky.
Heimildamaður Guardian vildi þó gera fólki ljóst að Hancock hefði ekki verið þeirrar skoðunar að það yrði samkeppni um bóluefni eingöngu vegna kvikmyndarinnar. Heldur hafi hann notað þá sviðsmynd sem dæmi um hvernig ástandið gæti orðið og að Bretar þyrftu að vera viðbúnir.
Hancock sjálfur ítrekaði það einnig í viðtali.
Viðbrögð ríkisstjórnar Bretlands við faraldri kórónuveirunnar hafa verið harðlega gagnrýnd. Tæplega fjórar milljónir hafa smitast, svo vitað sé, og tæplega 110 þúsund manns hafa dáið vegna veirunnar, samkvæmt Johns Hopkins háskólanum sem heldur utan um opinberar tölur.