Sport

Sjáðu magnaðar fimleikaæfingar sem vöktu athygli heimsbyggðarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nia Dennis vakti heimsathygli fyrir fimleikaæfingar sínar um helgina.
Nia Dennis vakti heimsathygli fyrir fimleikaæfingar sínar um helgina. getty/Keith Birmingham

Fimleikaæfingar Niu Dennis hafa farið eins og eldur í sinu um netheima. Þær vöktu meðal annars athygli Simone Biles og fleiri stjarna.

Dennis, sem er 21 árs, framkvæmdi gólfæfingarnar í viðureign UCLA (University of California, Los Angeles) og Arizona State um helgina.

Hún sagði að æfingarnar væru óður menningar svartra og framkvæmdi þær meðal annars undir tónlist Kendricks Lamar, Missy Elliott, Dr. Dre og Tupac.

Dennis fékk 9.95 í einkunn fyrir æfingarnar og sú einkunn hjálpaði UCLA að sigra Arizona State í fyrsta leik tímabilsins. Ekki nóg með það heldur sigraði Dennis hug og hjörtu fólks um allan heim með æfingunum.

„Þessar æfingar endurspegla allt sem ég er í dag sem kona og að sjálfsögðu þurfti ég að blanda mörgum þáttum minnar menningar inn í þær,“ sagði Dennis.

Klippa: Fimleikaæfingar Niu Dennis

Meðal þeirra sem lýstu yfir velþóknun sinni á æfingum Dennis var Simone Biles, sigursælasta fimleikakona allra tíma, og Missy Elliott.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Dennis vekur athygli fyrir glæsilegar æfingar en hún gerði það einnig í fyrra. Þá framkvæmdi hún æfingar við tónlist Beyoncés og fékk meðal annars hrós frá söngkonunni Aliciu Keys og Kamölu Harris, núverandi varaforseta Bandaríkjanna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.