Innlent

Ingi­björg Sól­rún segist spennt fyrir nýju starfi hjá SÞ í Írak

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mun hefja störf, sem staðgengill fulltrúa aðalritara Sameinuðu þjóðanna í Írak, í mars.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mun hefja störf, sem staðgengill fulltrúa aðalritara Sameinuðu þjóðanna í Írak, í mars. Vísir/Vilhelm

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi ráðherra og Alþingismaður, hefur verið skipuð sem staðgengill fulltrúa António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, í Írak. Hún segist spennt fyrir starfinu og verkefnunum sem því fylgja.

„Ég er mjög spennt fyrir starfinu. Ég var nú ekkert að hugsa mér til hreyfings og hélt ég væri bara komin heim. Svo bauðst mér þetta og mér finnst þetta spennandi, þetta er á mínu áhugasviði og þar af leiðandi ákvað ég að slá til,“ segir Ingibjörg Sólrún í samtali við Vísi.

Starfið felst einna helst í því að aðstoða stjórnvöld við undirbúning og framkvæmd kosninga og eftirlit með mannréttindamálum, sem er sama svið og Ingibjörg starfaði við hjá ÖSE sem yfirmaður Lýðræðis- og mannréttindastofnunar hennar.

„Þetta er mjög skylt því starfi að ýmsu leyti sem að ég gegndi hjá ÖSE. Ég var sem yfirmaður lýðræðis- og mannréttindastofnunarinnar hjá ÖSE yfir kosningadeildinni og hafði með lýðræðismálin að gera og það er á því sviði sem þetta starf er. Ég verð aðallega með pólitísku málin og kosningar, þannig að þetta er skylt því sem ég hef verið að gera.,“ segir Ingibjörg.

„En þetta er auðvitað alltaf til aðstoðar þeim, þau ráða för. Starfið felst líka í mannréttindamálum, þau koma þarna líka inn.“

„Eins lengi og maður getur lært eitthvað er það gaman“

Ingibjörg verður búsett í Bagdad, höfuðborg Írak, og flytur hún þangað í mars þegar hún hefur störf. Hún segist undirbúin fyrir það að flytja til Írak, en hún starfaði áður í Afganistan hjá UN Women.

„Ég hef verið í Afganistan, ég veit hvernig það er að vera í landi þar sem átök hafa átt sér stað. Ég geri ráð fyrir, og mér sýnist Írak vera betra en Afganistan. Ég veit alveg hvað ég er að fara út í,“ segir Ingibjörg.

„Mér finnst þetta mjög spennandi heimshluti. Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á Mið-Austurlöndum. Mér finnst heimshlutinn spennandi, mér finnst verkefnin spennandi og ég er viss um að þetta er tækifæri til þess að læra margt nýtt. Eins lengi og maður getur lært eitthvað er það gaman,“ segir Ingibjörg Sólrún.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×