Innlent

Slakað verði á tveggja metra reglunni eftir því sem stærri hópar mega koma saman

Birgir Olgeirsson skrifar
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og Landspítali bjóða til upplýsingafundar fyrir blaðamenn vegna Kórónuveirunnar
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og Landspítali bjóða til upplýsingafundar fyrir blaðamenn vegna Kórónuveirunnar Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Sóttvarnalæknir segir ljóst að slakað verði á tveggja metra reglunni eftir því sem gefinn verði meiri afsláttur á fjöldatakmörkunum. Sundlaugar verði opnaðar á undan líkamsræktarstöðvum því þar sé smithætta mun minni.

Tónlistarfólk saup hveljur þegar það heyrði sóttvarnalækni segja að tveggja metra reglan yrði haldin í heiðri út árið. Töldu tónlistarmenn sóttvarnalækni hafa skrifað upp á dánarvottorð tónlistarbransans með þeim tilmælum því ekki sé hægt að halda arðbæra tónleika með slíkum takmörkunum.

„Það held ég að séu of hörð viðbrögð,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

„Það sem ég hef alltaf sagt er að menn þurfi að hafa í heiðri þessa tveggja metra reglu út árið en menn þurfi að slaka á henni eftir því sem á líður. Þetta þarf að vera grunnregla hjá fólki hvað varðar einstaklingsbundnar sýkingarvarnir að reyna sem mest að viðhafa tveggja metra fjarlægð. En það er algjörlega augljóst að þegar eru komnir mjög margir saman og þegar líða tekur á árið og gefinn er meiri afsláttur á takmörkunum þá þurfa menn að slaka á tveggja metra reglunni líka,“ segir Þórólfur.

Sem þýðir að eftir því sem stærri hópar mega koma saman, þarf að slaka á tveggja metra reglunni.

Þannig að ef 2.000 manna samkomur verða leyfðar, þá verður tveggja metra reglan varla í hávegum höfð á þeim viðburðum?

„Það segir sig nokkuð sjálft að það verður mjög erfitt,“ segir Þórólfur.

Stefnt er að opnun sundlauga 18. maí en ekki líkamsræktarstöðvum. Hefur sú ákvörðun verið gagnrýnd en Þórólfur segir ástæðuna einfalda, minni smithætta sé í sundlaugum en líkamsræktarstöðvum.

„Að mínu mati eru snertifletir í líkamsræktarstöðvum miklu fleiri og smithættan miklu meiri heldur en í sundi. Þar fyrir utan er klórmagnið í laugunum mjög slæmt fyrir þessa veiru. Þannig að ég held að smithættan sé mun minni í sundi en í líkamsræktarstöðvunum.

Hann segir engin smit hafa komið upp í líkamsræktarstöðvum svo best sé vitað.

„En við erum ekki bara að einblína á þá staði þar sem smit hefur komið upp, heldur erum við að benda á þá staði og aðstæður sem geta orðið til þess að smit verði. Það er það sem við höfum verið að vinna með allan tímann og reyna að koma í veg fyrir.“

Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, sagði í samtali við Reykjavík síðdegis í gær að hann hefði sínar kenningar varðandi það að sundlaugar muni opna á undan líkamsræktarstöðvum. Sagðist Björn hallast að því að um pólitík væri að ræða. Einhver beitti þrýstingi svo til að komast í sund.

„Ég kannast ekki við að vera beittur neinum þrýstingi. Ég tel einfaldlega að smithættan sé meiri í líkamsræktarstöðvum en sundlaugum, vegna þess að smitfletir eru fleiri í líkamsræktarstöðvum og meiri nánd þar en í sundi.“

Stefnt er að opnun líkamsræktarstöðvum þegar takmörkunum verður aflétt í næsta skrefi, mögulega um næstu mánaðamót.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×