Erlent

Þúsundir þorpsbúa taka þátt í óeirðum

Reiðir þorpsbúar Nánast daglega hafa þúsundir manna safnast saman á götum Wukan til að mótmæla bæjaryfirvöldum, sem seldu verktökum landsvæði sem notað hefur verið til landbúnaðar.nordicphotos/AFP
Reiðir þorpsbúar Nánast daglega hafa þúsundir manna safnast saman á götum Wukan til að mótmæla bæjaryfirvöldum, sem seldu verktökum landsvæði sem notað hefur verið til landbúnaðar.nordicphotos/AFP
Mikil ólga hefur verið undanfarna mánuði í Wukan, tuttugu þúsund manna bæ í sunnanverðu Kína. Upp úr sauð nú í vikunni eftir að Xue Jinbo, slátrari sem hafði talað máli bæjarbúa gagnvart stjórnvöldum, lést í fangelsi um síðustu helgi.

Þúsundir manna hafa tekið þátt í mótmælum á götum bæjarins undanfarna daga, nánast daglega. Í gær mættu svo sjö þúsund manns í útför Xues, þar sem farið var fögrum orðum um hinn látna.

Deilurnar við stjórnvöld snúast um landsvæði, sem bæjarbúar segja að opinberir embættismenn hafi selt til verktaka án þess að hafa fengið til þess leyfi frá bæjarbúum, sem hafa notað þetta landsvæði til landbúnaðar og gera til þess tilkall.

Mótmæli gegn stjórnvöldum á sveitarstjórnarstigi hafa undanfarin ár orðið æ algengari í Kína. Sjaldan berast þó miklar fréttir af slíkum mótmælum út fyrir landsteinana.

Í Wukan hafa mótmælin orðið háværari og öflugri en víðast hvar. Mótmælendur hafa reist vegartálma umhverfis bæinn og hafa ekki hleypt lögreglu inn fyrir.

Xue var einn þeirra sem hvað ákafast börðust fyrir málstað bæjarbúa, sem eru sannfærðir um að lögreglan hafi valdið dauða hans með misþyrmingum í fangelsinu þar sem hann lést daginn eftir að hafa verið handtekinn.

Dóttir hans segir að á líki hans hafi sést greinilegir áverkar og bólgur á munni, höndum, hálsi og víðar, auk sára á enni og kjálka.

„Hann var drepinn fyrir að berjast fyrir því að bæjarbúar fái aftur landið. Við grétum öll vegna hans,“ sagði Huang Hancan, einn íbúanna sem mættu í útförina í gær. „Enginn vafi leikur á því að hann var barinn og allir geta ímyndað sér það.“

Upp úr sauð fyrst út í Wukan í september þegar til óeirða kom í tengslum við mótmæli bæjarbúa gegn hinni umdeildu landsölu. Íbúar Wukan hafa síðan sent inn mótmælabréf og krafist funda með yfirvöldum, en án árangurs.

Fyrir rúmri viku, á föstudegi, voru nokkrir bæjarbúar handteknir. Daginn eftir höfðu bæjarbúar sett upp vegartálma og meinuðu lögreglu aðgangi. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×