Sport

Hafþór ætlar að setja rosalegt heimsmet í beinni: „Þetta á ekki að vera hægt“

Sindri Sverrisson skrifar
Hafþórs Júlíus Björnsson er bjartsýnn á að ná heimsmetinu á laugardaginn.
Hafþórs Júlíus Björnsson er bjartsýnn á að ná heimsmetinu á laugardaginn. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson ætlar að setja heimsmet í réttstöðulyftu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport um kl. 17 á laugardaginn.

Hafþór ætlar að lyfta rúmlega hálfu tonni í réttstöðulyftu fyrstur manna, eða nákvæmlega 501 kílói. Takist það útilokar hann ekki að reyna við enn meiri þyngd. Heimsmetið í réttstöðulyftu, með búnaði, er slétt 500 kíló og er í eigu Eddie Hall. Fylgst verður með tilraun Hafþórs um allan heim:

„Ástæðan fyrir því að þetta er að fá svona mikla athygli er að þetta á ekki að vera hægt. Hann tók þetta einu sinni og menn voru í raun orðlausir. Þetta var mikið afrek þá, og það hafa aðrir reynt þetta án árangurs,“ segir Hafþór í Sportinu í dag. Hann hefur mest lyft 470 kílóum í réttstöðulyftu en er bjartsýnn á að heimsmetið falli á laugardaginn.

„Ég reyndi þetta einu sinni, á annarri stöng og ekki með búnað, og þá náði ég vigtinni að hnjám. Vinstri löppin mín rann smá til hliðar og ég missti þetta niður. Ég er í mun betra formi núna, búinn að æfa stíft og jafnt, bara fyrir þetta, þannig að ég hef góða trú á þessu,“ segir Hafþór en nánar er rætt við hann hér að neðan.

Klippa: Sportið í dag - Hafþór stefnir á heimsmet

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×