Innlent

Undirritaði friðlýsingu hluta Þjórsárdals

Samúel Karl Ólason skrifar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu hluta Þjórsárdals sem landslagsverndarsvæði. Þrír þekktir staðir eru innan svæðisins og eru þeir einnig friðlýstir sem náttúruvætti. Þar er um að ræða Gjána, Háafoss og Granna og Hjálparfoss. Samkvæmt tilkynningu frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er þetta fyrsta friðlýsing í friðlýsingarflokki landslagsverndarsvæða á Íslandi.

Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðilegri sérstöðu, fágætu, sérstöku og fögru landslagi ásamt náttúrufyrirbærum sem þar er að finna. Guðmundur Ingi skrifaði undir friðlýsinguna í Árnesi síðdegis í dag og skálaði í kaffi með íbúum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Friðlýsingin er hluti af sérstöku átaki stjórnvalda í friðlýsingum og var unnin í samstarfi við Skeiða- og Gnúpverjahrepp og forsætisráðuneytið.

„Gjáin og fossarnir öðlast hér verðugan sess á meðal friðlýstra svæða á Íslandi. Þetta er mjög gott dæmi um hvernig megi beita friðlýsingum sem aðferð við að stýra álagi ferðamanna á náttúruperlur okkar, m.a. með auknum innviðum og landvörslu. Við settum aukið fjármagn í slík verkefni strax í fyrra á meðan á undirbúningi friðlýsingar stóð sem þegar hefur skilað árangri í vernd svæðisins og stýringu ferðamanna,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×