Enski boltinn

Ballack: Ancelotti réð engu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Ballack var í lykilhlutverki hjá Chelsea á síðasta tímabili.
Michael Ballack var í lykilhlutverki hjá Chelsea á síðasta tímabili. Mynd/Nordic Photos/Getty
Þjóðverjinn Michael Ballack segir að Carlo Ancelotti, stjóra Chelsea, hafi ekkert haft með það að segja þegar Ballack var látinn fara frá Chelsea í sumar. Ballack lék 45 leiki með liðinu á síðasta tímabili þegar Chelsea vann tvöfalt.

„Ég hafði það á tilfinningunni þegar við töluðum saman að hann vildi halda mér. Annað kom síðan á daginn," sagði Michael Ballack í viðtali við The Independent. Ballack fór í framhaldinu til þýska liðsins Bayer Leverkusen.

Chelsea lét fimm leikmenn fara í sumar sem áttu það sameiginlegt að fá mjög góð laun og er talað um að með þessu hafi félagið lækkað launakostnum um 20 milljónir punda á ári.

Ancelotti hitti Ballack í Bandaríkjunum eftir að Chelsea hafði tilkynnt um að félagið myndi ekki framlengja samninginn við þýska landsliðsmanninn.

„Við hittumst í hádegismat og ég fékk það á tilfinninguna að þetta hafi komið honum á óvart. Svona er bara fótboltinn. Þetta hafði hinsvegar ekkert að gera með samband mitt við leikmenn eða þjálfara Chelsea," sagði Ballack.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×