Enski boltinn

Manchester City tókst ekki að komast á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsenal og Manchester City gerðu 1-1 jafntefli á Emirates-leikvanginum í kvöld í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Manchester City tókst þar með ekki að nýta sér tap Chelsea á móti Crystal Palace fyrr í dag en sigur hefði skilað City-liðinu upp í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Manchester City er nú tveimur stigum á eftir toppliði Chelsea en á enn tvo leiki inni á Chelsea. Liverpool er síðan einu stigi á eftir Chelsea og kemst í toppsætið með sigri á Tottenham á morgun.

Sjálfsmark Mathieu Flamini kostaði Arsenal sigur á móti Swansea um síðustu helgi en að þessu sinni skoraði hann í rétt mark og það reyndist vera jöfnunarmark leiksins.  Þetta voru sanngjörn úrslit en baráttuandi Arsenal-manna hefði kannski getað skilað þeim öllum stigunum.

Arsenal hefur byrjað skelfilega í mörgum leikja sinna á móti toppliðunum og enn á ný lenti liðið undir snemma leiks. David Silva kom Manchester City í 1-0 á 18. mínútu þegar hann fylgdi á eftir úr markteignum þegar Edin Dzeko skaut í stöngina.

Ólíkt mörgum öðrum leikjum gegn bestu liðum deildarinnar þá áttu Arsenal-menn meiri svör í kvöld og liðinu tókst að vinna sig inn í leikinn. Það var engin uppgjöf í liðinu sem var mikill munur frá tapleikjunum á móti Chelsea og Liverpool.

Mathieu Flamini hélt að hann hefði jafnaði metin nokkrum mínútum eftir mark David Silva en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Arsenal mátti alls ekki tapa leiknum og þeir Tomas Rosicky og Santi Cazorla fóru fyrir áhlaupi liðsins í kjölfarið á marki City.

Mathieu Flamini var aftur á ferðinni á 53. mínútu og þá var markið hans dæmt gilt. City-menn gleymdu honum í teignum og Flamini skoraði með laglegu viðstöðulausu skoti eftir fyrirgjöf frá Lukas Podolski.

Arsenal hafði reyndar heppnina með sér skömmu áður þegar Per Mertersacker var ótrúlega nálægt því að setja boltann í eigið net.

Arsenal-menn reyndu að sækja öll stigin á lokakafla leiksins en City-menn héldu út og jafnteflið varð niðurstaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×