Innlent

Bílþjófurinn ekki í ástandi til yfirheyrslu í morgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn, sem stal bifreið fyrir utan leikskólann Rjúpnahæð í Kópavogi í gær, verður að öllum líkindum yfirheyrður síðar í dag, að sögn Jóhanns Davíðssonar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ekki var unnt að yfirheyra manninn í gær sökum annarslegs ástands hans og sömu sögu var að segja í morgunsárið.  

Tveggja ára gamalt barn var í bílnum, en faðir barnsins hafði skilið bílinn eftir með lyklana í. Fjölskyldan er nýflutt á höfuðborgarsvæðið frá Vestmannaeyjum og sagðist faðirinn, í samtali við Vísi í gær, draga lærdóm af þessu. Hægt hafi verið að leyfa sér ýmislegt á Heimaey sem gangi ekki lengur. Hann kenndi sjálfum sér um kæruleysi og værukærð.

Umfangsmikil leit var gerð að bílnum á fjórða tímanum í gær þegar í ljós kom að hann væri horfinn. Fundvís leikskólakennari hafði uppi á bílnum við verslun Krónunnar í Salahverfinu en hún sagði í viðtali við Fréttablaðið í morgun að ekki hefði komið til greina að barni af hennar leikskóla yrði stolið. Barnið virðist hafa sofið atburðarásina af sér og verður ekki meint af að sögn föðurins.

Rætt var við leikskólastjórann á Rjúpnahæð í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.


 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×