Erlent

Bush fagnað í Georgíu

Fagnað af tugþúsundum heimamanna hvatti George W. Bush Bandaríkjaforseti í ræðu í Tíflis, höfuðborg fyrrverandi Sovétlýðveldisins Georgíu, í gær til útbreiðslu lýðræðis um öll þau lönd sem á dögum kalda stríðsins lutu stjórn kommúnista. Lýsti hann því yfir að kúgaðar þjóðir krefðust frelsis, og það skyldu þær fá. Bush sagði að þróunin í Georgíu, þar sem hin friðsamlega "Rósabylting" árið 2003 hrinti af stað keðjuverkun stjórnbreytinga í lýðræðisátt í þessum heimshluta, væri lýðræðisumbótasinnum víða um heim hvatning til dáða. "Frelsi mun verða framtíð hverrar þjóðar á jörðinni," lýsti Bush yfir. Víst er að þessi orð forsetans mun vekja litla gleði meðal ráðamanna í Moskvu, en þeir hafa þegar kvartað yfir því að Bandaríkjamenn séu óumbeðnir að skipta sér af málum á áhrifasvæði Rússa. Kremlverjar höfðu þannig gert athugasemdir við að Bush skyldi koma við bæði í Georgíu og Lettlandi, öðru litlu grannlandi Rússlands sem áður tilheyrði Sovétríkjunum. Bush flaug til Tíflis beint frá Moskvu, þar sem hann var viðstaddur hátíðarhöld í tilefni af því að sextíu ár eru frá lokasigri bandamanna yfir herjum Hitlers. Bush lýsti yfir fullum skilningi á því að Georgíustjórn skyldi ekki vilja fallast á að tvö héruð sem hafa sagt sig úr lögum við landið fengju sjálfstæði. Forsvarsmenn aðskilnaðarhreyfinganna í héruðunum tveimur eru í góðum tengslum við rússnesk stjórnvöld og njóta herverndar rússneskra "friðargæsluhermanna". "Fullveldi og landhelgi Georgíu verða allir að virða," sagði Bush. Mikhaíl Saakasvilí, forseti Georgíu, sagði mannfjöldann sem fagnaði Bush á Frelsitorginu í Tíflis vera stærri en komið hefði saman nokkru sinni áður í sögu landsins. Ágiskanir um fjöldann voru á bilinu 100.000 til 300.000. Víst er að þetta var ein fjölmennasta samkoma sem Bush hefur ávarpað. "Við bjóðum þig velkominn sem baráttumann fyrir frelsi," sagði Saakasvilí við Bush, en hann er fyrsti Bandaríkjaforsetinn sem heimsækir landið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×