Erlent

Hitti aðalandstæðing Pútíns

Það þykir táknrænt og segja meira en mörg orð um minnkandi velvild í garð Pútíns Rússlandsforseta að Bush Bandaríkjaforseti fór beint frá hátíðarhöldunum á Rauða torginu í gær til Georgíu að heimsækja einn höfuðandstæðing Pútíns. Það fór svo sem ágætlega á með þeim Bush og Pútín í gær enda hafa þeir alltaf verið góðir vinir. Allir vita hins vegar að undir niðri kraumar vaxandi óánægja, óánægja Bandaríkjastjórnar með sívaxandi einræðistilburði Pútíns og harkalegar aðgerðir í Tsjetsjeníu og óánægja Pútíns með að fá ekki óáreittur að hegða sér eins og Bandaríkjastjórn gagnvart meintum hryðjuverkamönnum í sínum eigin bakgarði. Hermarsarnir voru vart þagnaðir á Rauða torginu í gær þegar Bush hoppaði upp í þotu og flaug yfir til Georgíu til að hitta þar leiðtoga lýðræðislegu borgarabyltingarinnar fyrir hálfu öðru ári og núverandi forseta Saakashvílí. Saakashvílí og Pútín elda saman grátt silfur. Eduard Shevardnadze, sem var hrakinn frá völdum í byltingunni, var sérstakur bandamaður Rússa en Saakashvílí er menntaður í Bandaríkjunum og hallar sér meira í vesturátt en til Rússlands. Bush sagði í ávarpi sínu í Tíblisi að hann og kona hans Laura hefðu verið í nágrenninu og hefði fundist rétt að heilsa upp á Georgíumenn. Það vakti athygli að Bush lék á alls oddi í þessari heimsókn, dansaði fyrir gestgjafana og Lauru spúsu sína og hnykkti mjöðmunum til og frá. Þá lýsti hann yfir eindregnum stuðningi við Saakashvílí og sagðist meðal annars myndu styðja inngöngu Georgíu í Atlantshafsbandalagið. Ýmsir andstöðuhópar nýttu sér athyglina sem beindist að Bush. Pólitískir andstæðingar Saakashvílís lágu ekki á sinni skoðun og flóttamenn frá Tsjetsjeníu biðluðu til Bush að skerast í leikinn þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×