Lífið

Telur tónlist vinna gegn depurð heilabilaðra

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Magnea með syni sína, Kolbein Tuma sex ára og Hallgrím Orra átta ára.
Magnea með syni sína, Kolbein Tuma sex ára og Hallgrím Orra átta ára. Vísir/Vilhelm
„Nám í listkennslu við Listaháskólann getur leitt mann á ýmsar slóðir. Það veitir fólki rétt til að verða kennarar á sínu listasviði í grunnskóla og framhaldsskóla en þó ég hafi unnið mikið með ungu fólki gegn um tíðina hef ég í dag meiri áhuga á að vinna með eldri borgurum,“ segir Magnea Tómasdóttir söngkona.

Hún er að útskrifast úr meistaranámi frá listkennsludeildinni og er ein þeirra sem ætla að kynna það í dag klukkan 16.30 á Laugarnesvegi 91.

 „Það sem ég er að sérhæfa mig í er tónlistariðkun með fólki með Alz­heimer og aðrar tegundir heilabilunar,“ segir Magnea.

„Mamma greindist 61 árs gömul með heilabilun og lifði í 12 ár, svo greindist pabbi með Alzheimer og hann dó fyrir hálfu ári. Við notuðum tónlist mikið í umönnun þeirra beggja. Meistararitgerð mín spratt dálítið út frá því, enda snerist líf mitt um þau í 20 ár.“

 Magnea segir tónlistarhlustun og tónlistariðkun geta verið ákjósanlegan part af umönnun heilabilaðra. Hún auki lífsgæði þeirra, minnki depurð og auki virkni.

„Í gegnum tónlistina sést oft í manneskjuna bak við sjúkdóminn,“ fullyrðir hún.

Hugmyndir eru uppi um að Listaháskólinn fari af stað með námskeið til að þjálfa tónlistarfólk í að sinna svona störfum, að sögn Magneu. Hún hefur áhuga á að fara til London og kynna sér aðferðir Englendinga, enda segir hún þá framarlega á þessu sviði, er þegar búin að fara út og komast að því. 

Magnea ætlar að lýsa náminu í listkennsludeildinni óformlega í dag niðri í Laugarnesi og svara fyrirspurnum.

„Það sem er svo gott við þessa deild er að þar mætist listafólk úr hinum ýmsu greinum, tónlist, sviðslistum og sjónlistum, þannig að maður fær innsýn í svo margt. Það er lærdómsríkt.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×