Enski boltinn

Steven Gerrard ætti að ná Fulham-leiknum - ekki með um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steven Gerrard verður ekki með Liverpool á móti Newcastle um helgina en ætti að geta spilað leikinn á móti Fulham um næstu helgi. Gerrard er enn að ná sér góðum eftir að hafa meiðst aftan í læri í vináttulandsleik Englendinga og Frakka á dögunum.

„Ég veit ekki hvaðan sú saga kom að Gerrard yrði með á móti Newcastle. Við höfum alltaf stefnt að því að hann komi til baka fyrir leikinn á móti Fulham. Það væri alltof snemma að koma með hann inn í Newcastle-leikinn," sagði Roy Hodgson, stjóri Liverpool.

„Hann er á mjög góðri leið og við erum ánægðir með hvernig endurhæfingin hefur gengið. Hann er því á áætlun sem sýnir það að Newcastle-leikurinn var alltaf óraunhæfur möguleiki," sagði Hodgson.

Daniel Agger gæti einnig snúið aftur til baka í Fulham-leiknum þrátt fyrir að læknalið Liverpool sé á því að hann þurfi meiri tíma en bæði stjórinn og Agger sjálfur stefna að því að hann verði með á móti Fulham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×