Enski boltinn

Patrice Evra segir Arsenal vera eins og knattspyrnuskóli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra.
Patrice Evra. Mynd/AFP
Sálfræðistríðið fyrir toppslag Manchester United og Arsenal á mánudagskvöldið er hafið og franski bakvörðurinn hjá Manchester United, Patrice Evra, hraunaði aðeins yfir Arsenal-liðið í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina Canal+.

Patrice Evra sagði í viðtalinu að Arsenal væri klúbbur í krísu og að félagið væri frekar eins og uppeldissstöð fyrir knattspyrnumenn heldur en félag sem ætlaði að vinna titla.

„Fyrir mitt leyti þá er Arsenal bara eins og knattspyrnuskóli. Þeir hafa gaman að því að spila fótbolta en eru þeir að fara að vinna einhverja titla. Það eru fimm ár síðan þeir unnu eitthvað og það er krísuástand fyrir stórt félag eins og Arsenal," sagði Patrice Evra.

„Við getum tapað fyrir þeim í einum leik en þegar upp er staðið þá er Chelsea aðalkeppinautur okkar í vetur. Við höfum miklu meiri áhyggjur af því hvernig leikirnir fara hjá Chelsea heldur hvernig leikirnir fara hjá Arsenal. Við vitum samt að Arsenal er gott lið sem getur unnið öll lið," sagði Evra.

„Það er alltaf gaman að spila við Arsenal því þeir eru lið sem kemur ekki á Old Trafford með ellefu menn á bak við boltann. Við viljum líka spila fótbolta en munurinn á okkur og þeim er að við höfum líka líkamlegan styrk. Stundum geta þeir ekki klárað leiki og við nýtum okkar möguleika betur," sagði Evra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×