Enski boltinn

Alan Pardew: Aðrir stjórar segja að ég sé klikkaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Pardew er sestur í stjórastólinn hjá Newcastle United þrátt fyrir að fjöldi stjóra hafi varað hann við að taka við liðinu. Pardew er áttundi stjóri félagsins á rúmlega fjórum árum og eigandinn Mike Ashley hefur ekki gott orð á sér fyrir að sýna stjórum sínum þolinmæði.

Pardew sló hinsvegar til og skrifaði undir samning til ársins 2016. Það gerði hann þó aðeins eftir að fá það á hreint að Andy Carroll yrði ekki seldur og að það væru til peningar til leikmannakaupa þegar félagsskiptaglugginn opnar í næsta mánuði.

„Ég væri að ljúga að ykkur ef ég viðurkenndi ekki að ég hafi verið smá hikandi þegar ég ferðaðist hingað norður. Það olli mér vissulega áhyggjum að liðið var búið að vera með fimm stjóra á stuttum tíma en ég er viss um að ég standi mig og fáu fullan stuðning til þess," sagði Pardew.

Pardew ætlar að vinna sig inn í hug og hjörtu stuðningsmannanna sem hafa tekið heldur kuldalega á móti honum enda voru margir mjög ósáttir með það að Chris Hughton var rekinn.
Alan Pardew.Mynd/AP
„Ég þekki ekki til þessarar borgar og leyni því ekkert. Ég vil hinsvegar koma hingað með opna arma og meðtaka ást allra hér á fótboltanumn. Ég flyt hingað og verð vonandi hérna í langan tíma," sagði Pardew.

„Ég fékk samt fullt af sms-um frá öðrum stjórum sem sögðu að ég væri klikkaður að koma hingað. Þetta er stór klúbbur og einn af þeim fimm flottustu í landinu. Ég hefði ekki getað lifað með sjálfum mér ef að ég hefði ekki tekið við þessari áskorun," sagði Pardew.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×