Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin ætlar að þvinga Sir Alex til þess að tala

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, neitar enn að tala við blaðamenn BBC þrátt fyrir að honum beri skylda til þess að tala við rétthafa ensku úrvalsdeildarinnar. Ferguson hefur safnað upp dágóðum upphæðum í sektir fyrir að skrópa í viðtöl en nú á að gera allt til þess að Sir Alex mæti í öll viðtöl.

Enska úrvalsdeildin ætlar að breyta þessu með því að setja nýja reglugerð þar sem stjórar og leikmenn fá stigvaxandi refsingar neiti þeir að tala við fjölmiðla eftir leiki sína.

Ferguson hefur ekki talað við BBC í sex ár eða síðan að stöðin sýndi heimildarmynd um vafasöm vinnubrögð sonar hans Jason sem þá starfaði sem umboðsmaður. Á 24 ára stjóraferli sínum hefur hann sett alla stóru miðlanna á einhverjum tíma í fjölmiðlabann ef að honum hefur fundist halla eitthvað á sig eða sína.

Alex Ferguson og Mike Phelan.Mynd/AP
Ferguson hefur fengið sektir fyrir að tala ekki við BBC í vetur en enska úrvalsdeildin vill einnig koma í veg fyrir að stjórar geti hætt við blaðamannafundi á síðustu stundu.

Ferguson hætti nú síðast við blaðmannafund sinn fyrir Arsenal-leikinn og gaf þá skýringu að hann hafi verið óánægður með framsetninguna á ummælum sínum fyrir Manchester-slaginn á dögunum.

Það er talið að Ferguson hafi fengið um 65 þúsund pund í sekt fyrir fjölmiðlabann sitt á þessu tímabili en það gera um 11,8 milljónir íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×