Enski boltinn

Meiðslavandræði Arsenal halda áfram - Gibbs frá í 3 vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kieran Gibbs liggur hér sárþjáður á vellinum.
Kieran Gibbs liggur hér sárþjáður á vellinum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kieran Gibbs, bakvörður Arsenal, verður frá næstu þrjár vikurnar vegna ökklameiðsli sem hann varð fyrir í Meistaradeildarleik á móti Partizan Belgrad í vikunni. Gibbs er enn einn leikmaður Arsenal á þessu tímabili sem verður lengi frá vegna meiðsla.

Gibbs mun missa af risaleiknum á móti Manchester United auk þess að Arsenal verður án hans yfir alla jólahátíðina. Sem betur fer fyrir Arsenal er Gael Clichy orðinn góður af sínum meiðslum en þeir spila báðir sem vinstri bakvörður.

„Við erum búnir að missa Kieran Gibbs í meiðsli en allir aðrir ættu að vera heilir. Við giskum á að hann verði frá í þrjár vikur," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal,í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Ég er mjög vonsvikinn yfir þessu og ég vona að hann fari nú ekki að trúa því að hann sé alltaf meiddur. Þetta var enn eitt slysið og það er lítið hægt að gera við því. Hann verður góður með tímanum og þetta ætti ekki að hafa nein varanleg áhrif," sagði Wenger.

„Við ættum að fá Gael aftur inn fyrir mánudaginn. Hann var veiklulegur á æfingu í dag en við vonum að hann verði orðinn góður fyrir mánudagskvöldið," sagði Wenger.

Það er enn vafi hvort að Cesc Fabregas geti spilað leikinn. „Hann getur hugsanlega spilað þennan leik en það er samt óvíst hvort að hann verði í hópnum eða ekki. Það verður ekki ákveðið fyrr en á síðustu stundu," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×