Innlent

Sögu landabruggs verða gerð skil í bruggsmiðju á Borgarfirði eystra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Auður Vala Gunnarsdóttir, eigandi Blábjarga á Borgarfirði eystri.
Auður Vala Gunnarsdóttir, eigandi Blábjarga á Borgarfirði eystri. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Hún þykir óvenjuleg, jafnvel vafasöm, hugmyndin sem fólk á Borgarfirði eystri er að vinna með til að styrkja byggðina. Fjallað var um verkefnið í þættinum Um land allt og í fréttum Stöðvar 2.

Þegar kemur að því að efla byggð á Borgarfirði eystri virðist hugamyndaflugi hjónanna sem keyptu gömlu Kaupfélagsbyggingarnar engin takmörk sett. Þau Auður Vala Gunnarsdóttir íþróttakennari og Helgi Sigurðsson tannlæknir byrjuðu á því að breyta frystihúsinu, sem staðið hafði ónotað í tuttugu ár, í gistihúsið Blábjörg með matsölustað, bar og baðhúsi.

Þegar Auður Vala er spurð hvort það sé einhver bíssniss í þessu svarar hún ákveðið: „Já“. Starfsemin hafi vaxið jafnt og þétt enda sé margt á Borgarfirði sem fólk sæki í.

Gömlu Kaupfélagsbyggingarnar standa við gömlu bryggjuna.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

En svo kom næsta áskorun; að finna elsta húsinu, sjálfu Kaupfélaginu, nýtt hlutverk. Það var reist árið 1896 og á sér merkilega verslunarsögu.

„Það er ekkert hús sem á sér eins langa samfellda verslunarsögu, eins og þetta Kaupfélag, á Íslandi,“ segir Auður Vala.

Markmiðið er að koma húsinu í upprunalegt horf. En ekki bara til að halda verslunarsögunni á lofti.

Verslunarhús Kaupfélagsins var byggt árið 1896.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

„Ég hef mikinn áhuga á landa og sögu landans hér á Austurlandi, sem hefur verið mjög sterk, og sérstaklega í þessu bæjarfélagi. Þannig að í framtíðinni..“

-Bíddu, landans? Landabruggs?

„Já.“

-Ætlarðu að fara að brugga hérna ólöglega?

„Já, ég ætla að gera það,“ svarar Auður án þessa að hika.

„Þannig að við erum að vinna í því núna að setja upp sem sagt sögu landans og setja upp svona litla bruggsmiðju. Þannig að já, - ásamt ýmsu öðru,“ segir hún og hlær.

„Ég veit ekki hvort ég má segja þetta einu sinni,“ bætir hún við.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Búkollustjórinn Dóra einn af gleðigjöfum Borgfirðinga

Gleði ríkir meðal Borgfirðinga eystra að sjá loksins fyrir endann á uppbyggingu þjóðvegarins yfir til Héraðsflóa eftir áratugabaráttu. Liðlega tvítug stúlka er í hópi þeirra sem annast vegagerðina.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.