Innlent

Fleiri í­búðir á al­mennan leigu­markað vegna kórónu­veirunnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Vísir

Um fimm til sex hundruð íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem hingað til hafa verið í skammtímaleigu gætu bæst við almennan leigumarkað sem gæti leitt til lækkunar leiguverðs. Hætt er þó við því að húsnæðisskortur skapist á næstu árum ef samdráttur í byggingariðnaði verður of mikill.

Óvissa á húsnæðismarkaði hefur aukist verulega í ljósi kórónuveirufaraldursins samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

„Það hefur dregið verulega úr hækkunartakti fasteignaverðs og nú stendur fasteignaverð í raun og veru bara í stað miðað við sama tímabil í fyrra,“ segir Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Eftirspurn mun að öllum líkindum minnka að minnsta kosti til skamms tíma. „En á móti vegur auðvitað stýrivaxtalækkun Seðlabankans og aðrar aðgerðir stjórnvalda en óvissan mun að sjálfsögðu valda því að margir halda að sér höndum.“

Þá hefur orðið töluverður samdráttur í skammtímaleigu íbúða til að mynda í gegn um Airbnb. „Markaðurinn hefur í raun og veru verið að dragast mjög mikið saman alveg síðan undir lok árs 2018. Við sjáum núna í febrúar að samdrátturinn er um 25-30 prósent.“

Erfitt sé að segja til um það hver áhrifin verði um lengri tíma. „Ef mikill samdráttur verður í ferðaþjónustunni til viðbótar við það sem nú hefur þegar gerst þá gætu þetta verið kannski fimm til sex hundruð íbúðir á næstu mánuðum á höfuðborgarsvæðinu og það er stór hluti af heildarfjölda þinglýstra leigusamninga á síðasta ári þannig að ég tel alveg góðar líkur á því að leiguverð gæti lækkað. Allavega á svæðum þar sem framboðsaukningin er hvað mest.“

Þá segir hann vísbendingar um yfirvofandi samdrátt í byggingariðnaði sem sé mikið áhyggjuefni.

„Það er töluverð hætta á því að við getum lent í svipuðu ástandi og gerðist eftir hrun þegar mjög lítið var byggt og þegar uppgangurinn hófst hér fyrir alvöru þá rauk fasteignaverðið upp vegna skorts á húsnæði.“


Tengdar fréttir

Mikil­væg upp­bygging í þágu heimilis­lausra

Margir hafa réttilega lýst yfir áhyggjum af stöðu heimilislausra á þessum viðsjárverðu tímum. Þeir sem eiga hvergi heima geta ekki fylgt fyrirmælum um að halda sig heima og tilheyra auk þess mörg áhættuhópum sem setja þau í viðkvæma stöðu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×