Vinnumálastofnun hefur verið tilkynnt um sautján hópuppsagnir hjá fyrirtækjum í marsmánuði. Alls taka uppsagnirnar til 695 starfsmanna.
Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag. Er haft eftir Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, að búist sé við að fleiri uppsagnir bætist við í dag.
Unnur segir að tölur sem þessar hafi ekki sést síðan í bankahruninu, ef frá er talinn mánuðurinn fyrir um ári þegar flugfélagið WOW air féll. Eru uppsagnirnar nú mikið til innan ferðaþjónustunnar og verslunar og þjónustu.
Um fjögur þúsund fyrirtæki höfðu í gærkvöldi nýtt sér úrræði stjórnvalda um minnkað starfshlutfall, fyrir alls 20 þúsund starfsmenn. Auk þeirra hafði á áttunda þúsund manns sótt um atvinnuleysisbætur að því er fram kemur í grein Morgunblaðsins. Þannig eru bætur að hluta til eða öllu leyti til um 28 þúsund manns.