Innlent

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismat á Kjalarnesi felld úr gildi vegna formgalla

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fyrsti áfanginn sem á að breikka á Kjalarnesi liggur milli Varmhóla og Grundarhverfis. Vegagerðin vonast til að framkvæmdir þar geti hafist í sumar.
Fyrsti áfanginn sem á að breikka á Kjalarnesi liggur milli Varmhóla og Grundarhverfis. Vegagerðin vonast til að framkvæmdir þar geti hafist í sumar. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá því í júní í fyrrasumar um að breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Ógildingin er vegna formgalla, þar sem Skipulagsstofnun vísaði í ranga lagagrein, að mati Úrskurðarnefndarinnar, og breytir því ekki að Vegagerðin mun ljúka umhverfismatinu, sem er á lokametrunum.

Nefndin segir að uppkvaðning úrskurðar í málinu hafi dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hafi verið til hennar.

Úrskurðurinn féll í kærumáli sem Vegagerðin höfðaði gegn Skipulagsstofnun. Kærumálum níu sveitarfélaga á Vesturlandi vegna sama máls var hins vegar vísað frá þar sem Úrskurðarnefndin taldi þau ekki málsaðila en þau voru Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Dalabyggð, Helgafellssveit, Borgarbyggð og Grundarfjarðarbær.

Á borgarafundi á Akranesi fyrir tveimur árum lýsti bæjarstjórinn samstöðu meðal íbúa Vesturlands um þessar vegbætur, sem sjá mátti í frétt Stöðvar 2:

Úrskurðarnefndin segir að þeir einir geti átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eigi lögvarða hagsmuni. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Kærendur í þessu máli séu sveitarfélög en ekki samtök í skilningi laganna. Sveitarfélögin njóti ekki lögfestrar kæruheimildar en stjórnvöld hafi almennt ekki kærurétt í stjórnsýslunni.

Þótt Úrskurðarnefndin hafi fallist á kröfu Vegagerðarinnar um að ógilda ákvörðun Skipulagsstofnunar var það gert á grundvelli formgalla, þar sem vísað var í 6. grein laga í stað 5. greinar laga. Í rökstuðningi nefndarinnar kemur hins vegar fram sá skilningur að mat á umhverfisáhrifum skuli fara fram vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes.

„Niðurstaðan breytir því engu um það að umrædd framkvæmd skal sæta mati á umhverfisáhrifum,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

„Þetta sést ekki á úrskurðarorðinu sjálfu en kemur fram í rökstuðningi nefndarinnar fyrir niðurstöðunni. Þannig að það má segja að við séum í óbreyttu ástandi. Mat á umhverfisáhrifum þarf að fara fram,“ segir Pétur.

En hvenær má búast við verkið verði boðið út?

„Búast má við að verkið verði boðið út í júní ef allt gengur upp varðandi umhverfismat, breytingar á deiliskipulagi og framkvæmdaleyfi.“

Hann segir vinnu við umhverfismat á lokametrunum og verið að fara yfir athugasemdir sem bárust við frummatsskýrsluna. Skipulagsstofnun taki sér svo allt að fjórar vikur til að gefa álit um mat á umhverfisáhrifum.

Annar áfangi verksins verður kaflinn frá Grundarhverfi að Hvalfjarðargöngum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Verkinu verði skipt upp í tvo áfanga. Fyrsti áfangi sé Varmhólar-Grundarhverfi og annar áfangi sé Grundarhverfi-Hvalfjörður. Áætlað sé að hönnunarvinnu fyrsta áfanga ljúki í lok maí en hönnunarvinnu við annan áfanga ljúki í ágúst.

„Vonir standa til að bæði Skipulagsstofnun og Reykjavíkurborg hraði afgreiðslu á umhverfismati og minniháttar breytingum á deiliskipulagi vegna þessa verkefnis og setji það í forgang svo hægt verði að hefjast handa við fyrsta áfanga í sumar,“ segir upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Frétt Stöðvar 2 frá því í apríl í fyrra þar sem verkinu er lýst má sjá hér:Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.