Fótbolti

Lið sem KR sló út úr Evrópudeildinni 2011 gjaldþrota vegna kórónuveirufaraldursins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Framtíð Žilina er óráðin.
Framtíð Žilina er óráðin. vísir/getty

Žilina, sem hefur sjö sinnum orðið meistari í Slóvakíu, er gjaldþrota. Það ku vera fyrsta fótboltafélagið sem verður gjaldþrota vegna áhrifa kórónuveirunnar.

Nokkrir leikmenn Žilina neituðu að taka á sig launalækkun og því ákvað eigandi félagsins að lýsa yfir gjaldþroti. Flestir leikmenn Žilina munu væntanlega yfirgefa félagið á frjálsri sölu.

Žilina hefur þó ekki dregið félagið úr keppni í slóvakísku úrvalsdeildinni og það mun leika í henni þegar, eða ef, tímabilið hefst aftur.

Žilina hefur verið fastagestur í Evrópukeppnum undanfarin ár. Árið 2011 sló KR Žilina úr leik í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar, 3-2 samanlagt. 

KR-ingar unnu fyrri leikinn á heimavelli, 3-0, með mörkum Bjarna Guðjónssonar, Viktors Bjarka Arnarssonar og Kjartan Henrys Finnbogasonar. Žilina vann seinni leikinn í Slóvakíu, 2-0, en það dugði ekki til. Markvörður Žilina á þessum tíma var Martin Dúbravka sem er í dag aðalmarkvörður Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni.

Tímabilið 2010-11 tók Žilina þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið var með Chelsea, Marseille og Spartak Moskvu í riðli og tapaði öllum sex leikjum sínum með markatölunni 3-19.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.