Innlent

Af­sannar mýtuna um að kórónu­veiran hafi verið búin til á til­rauna­stofu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skimun fyrir kórónuveirunni hjá Heilsugæslunni Höfða.
Skimun fyrir kórónuveirunni hjá Heilsugæslunni Höfða. Vísir/vilhelm

Útilokað er að kórónuveiran sem nú herjar á heimsbyggðina hafi verið búin til á rannsóknarstofu, líkt og mýtur um uppruna veirunnar herma. Veiran varð til við náttúrulega þróun í mismunandi dýrum og á uppruna sinn að öllum líkindum í leðurblökum. Þetta kemur fram í svari deildarlæknis á Landspítalanum við spurningu um uppruna veirunnar á Vísindavefnum.

Sögusagnir um að kórónuveiran (SARS-CoV-2) hafi verið búin til á rannsóknarstofu, jafnvel við „þróun sýklahernaðar“, í kínversku borginni Wuhan, þar sem hún á upptök sín, skutu fljótt upp kollinum þegar veiran tók að breiðast út. Þá hafa einnig sprottið upp mýtur þess efnis að veiran sé samsett úr tveimur veirum, SARS- og HIV.

Í stuttu máli eru þessar sögusagnir rangar og eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Þetta tekur Jón Magnús Jóhannesson deildarlæknir á Landspítalanum ítarlega til umfjöllunar í svari sínu við spurningum um áðurnefndar mýtur.

Mörg dæmi um sýkla sem bárust í menn á tilraunastofum

Líkt og komið hefur fram er talið að kórónuveirur sem hingað til hafa sýkt menn, líkt og nýja kórónuveiran nú, eigi upptök sín í dýrum. Mjög líklegt þykir að nýja kórónuveiran hafi komið úr leðurblökum, líkt og SARS- og MERS-kórónuveirurnar, sem eru henni skyldastar. Þær bárust þó í menn með millihýslum, sú fyrrnefnda úr einni tegund kattardýra og sú síðarnefnda úr drómedara.

„Talsverð umræða hefur einnig skapast um það hvort veiran komi úr náttúrunni eða eigi frekar rætur að rekja til rannsóknastofu. Þetta er ekki að ástæðulausu, enda mörg dæmi um sýkla sem hafa borist í starfsfólk á rannsóknarstofum og ýmist valdið stökum veikindum eða jafnvel litlum faröldrum. Til að mynda smitaðist vísindamaður af SARS-CoV (sem veldur severe acute respiratory syndrome, eða SARS) við vinnu í rannsóknarstofu,“ segir í svari Jóns Magnúsar.

Beltisdýr eru víða seld á matarmörkuðum í Kína.Vísir/Getty

Leðurblökur og beltisdýr

En hvernig er hægt að vera viss um að veiran sé ekki manngerð á rannsóknarstofu? Í því samhengi segir Jón Magnús að best sé skoða erfðaefni nýju kórónuveirunnar. Veiran er svokölluð RNA-veira og stökkbreytingar eru algengari meðal veira sem hafa slíkt erfðaefni en annarra. Jón Magnús segir að hægt sé að meta skyldleika veira, „bæði í tíma og eiginleikum“, með því að skoða erfðaefnið og meta fjölda stökkbreytinga í því.

„Fjöldi rannsókna hafa skoðað erfðaefni SARS-CoV-2 í þaula og borið saman við aðrar kórónuveirur, bæði úr mönnum og öðrum dýrum. Fjöldi stökkbreytinga í mismunandi stofnum veirunnar staðfesta að SARS-CoV-2 er ný veira sem hefur nýlega borist til manna. Þar að auki er skyldasta þekkta veira SARS-CoV-2 veira úr leðurblöku (fræðilegt heiti hennar er RaTG13 kórónuveira),“ skrifar Jón Magnús.

„Til að flækja málið enn frekar er bindiprótín veirunnar sérlega líkt bindiprótínum í kórónuveirum sem koma úr vissri tegund beltisdýra (e. Sunda pangolin, Manis javanica). Ef þetta er tekið saman bendir það til þess að veiran hafi líklegast komið úr leðurblökum en fengið bindiprótínið úr annarri kórónuveiru sem sýkir Manis javanica.“

Hin áðurnefnda RaTG13-kórónuveira sé þó of frábrugðin nýju kórónuveirunni til að vera nánasti undanfari hennar. Þá sé jafnframt óvenjulegt að bindiprótín nýju kórónuveirunnar hafi að mestu komið úr beltisdýri.

„Þessir þættir sýna að veiran varð til við náttúrulega þróun í mismunandi dýrum, með hægfara breytingum og endurröðun sem að lokum leyfði henni að berast til og á milli manna. Þetta útilokar, að svo miklu leyti sem það er hægt, að veiran hafi verið búin til á rannsóknastofu.“

Svar Jóns Magnúsar í heild.


Tengdar fréttir

Loka breska þinginu í mánuð

Fundum á breska þinginu verður frestað í að minnsta kosti fjórar vikur frá deginum í dag að meðan yfirvöld reyna hvað þau geta til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

„Að koma heilum skóla í sóttkví er ekki góð tilfinning“

Fyrsti íbúi Húnaþings vestra sem greindist með kórónuveiruna segir það ekki hafa verið góða tilfinningu að senda heilan skóla í sóttkví í síðustu viku. Hún kveðst þó einungis hafa fengið góða strauma og stuðning frá íbúum sveitarfélagsins eftir að í ljós kom að hún var smituð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.