Leikstjórnandastaðan er mikilvægasta staða vallarins í NFL-deildinni og það voru góð ráð dýr hjá liði Denver Broncos þegar daginn fyrir leik varð ljóst að allir fjórir leikstjórnendur liðsins máttu ekki taka þátt í leiknum í gær.
Óþekktum leikmanni að nafni Kendall Hinton var á endanum hent út í djúpu laugina þegar allir fjórir leikstjórnendur Denver Broncos liðsins voru komnir í einangrun eða sóttkví vegna kórónuveirunnar.
Leikstjórnandinn Jeff Driskel hafði fengið kórónuveiruna og eftir að hafi logið um það fyrst, þá viðurkenndu hinir þrír leikstjórnendur liðsins það loksins á laugardaginn, að þeir höfðu ekki fylgt öllum sóttvarnarreglum.
Allir fjórir voru því úr leik og forráðamenn Denver Broncos þurftu að finna nýjan leikstjórnanda fyrir leikinn daginn eftir.
Kendall Hinton hasn t met some people in the Broncos building, per @JamesPalmerTV
— Bleacher Report (@BleacherReport) November 29, 2020
And he s starting at QB today @brgridiron pic.twitter.com/Os0bzEuBN2
Þeir enduðu á því að finna umræddan Kendall Hinton í varaliðinu. Hann er samt ekki leikstjórnandi heldur útherji en hafði einhvern tímann spilaði leikstjórnandann í háskóla. Hinton var hins vegar það slakur þar að hann skipti um stöðu.
Kendall Hinton hafði líka aldrei komið við sögu í NFL leik í sinni stöðu hvað þá sem leikstjórnandi. Hann þekkti ekki leikkerfin fullkomlega og var jafnvel ekki einu sinni málkunnugur sumum leikmönnum aðalliðsins.
Útkoman var heldur ekki glæsileg hjá greyið Kendall Hinton. Hann klikkaði á átta fyrstu sendingunum sínum og náði aðeins einni heppnaðri sendingu allan leikinn. Hinton kastaði boltanum aftur á móti tvisvar sinnum frá sér og Denver steinlá 31-3.
Broncos QB Kendall Hinton deserves respect @Kendall_Hinton2
— ESPN (@espn) November 30, 2020
Undrafted WR
Came off the practice squad
Zero practice reps
Competed in his first NFL game pic.twitter.com/KJJvCRTKW1
„Ég get auðveldlega haldið því fram að þetta hafi verið viðburðaríkustu 24 klukkutímarnir á minni ævi. Þegar þeir kölluðu á mig þá var ég mjög spenntur en auðvitað fylgdu þessu líka stress og vantrú,“ sagði Kendall Hinton.
„Ég hafði enga hugmynd um hvernig væri að spila svona leik. Ég þekkti aðeins til leikkerfa okkar en þau eru allt öðruvísi fyrir leikstjórnandann. Við vissum fyrir fram að þetta yrði mjög erfitt en ég var tilbúinn að takast á við þessa áskorun,“ sagði Hinton sem verðir seint sakaður um að vera ekki hugrakkur.
Það er eitt að taka þetta stóra skref að spila sinn fyrsta NFL-leik en hvað þá að gera það nánast óundirbúinn, í nýrri stöðu og á móti einu besta liði NFL-deildarinnar. Það er ólíklegt að einhver eigi eftir að standa í sömu sporum og Kendall Hinton í næstu framtíð.