Innlent

Telur áhyggjur af skólastarfi í engum takti við raunveruleikann

Jakob Bjarnar skrifar
Kennslustofur eru víða auðar, skólastarfið reiðir sig að veruleg leyti á fjarkennslu en þar hefur að sögn Kristins Þorsteinssonar skólameistara verið lyft Grettistaki.
Kennslustofur eru víða auðar, skólastarfið reiðir sig að veruleg leyti á fjarkennslu en þar hefur að sögn Kristins Þorsteinssonar skólameistara verið lyft Grettistaki. visir/vilhelm/aðsend

Kristinn Þorsteinsson skólameistari hefur brugðist við gagnrýni sem hefur birst víða, áhyggjur af því að skólastarf framhaldsskólanema sé í ólestri vegna aðgerða sóttvarnayfirvalda. Hann segir það ekki svo, þvert á móti gengur skólastarf vel og brottfall nemenda sé ekki meira en verið hefur.

„Það hefur verið kallað eftir þeim sem bera hagsmuni unga fólksins fyrir brjósti. Ég fullyrði að skólameistarar, skólastjórar og starfsfólk skólanna sem og menntamálaráðherra og starfsfólk ráðuneytisins hafa unnið þrekvirki í málefnum ungs fólks og alltaf haft hagsmuni barna og unglinga í hávegum,“ segir Kristinn í grein sem hann birtir á Vísi. Kristinn er skólameistari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ en hann er jafnframt formaður Skólameistarafélags Íslands.

Meðal þeirra sem hafa viðrað áhyggjur af ungmennunum er Sigurþóra Bergsdóttir framkvæmdastjóri Bergsins. Hún óttist að brottfall úr framhaldsskólum verði stórfellt nú fyrir jól, ungmennin séu einfaldlega að gefast upp fyrir verkefninu.

„Þetta á bæði við um þau sem eru í framhaldsskóla en líka þau sem eru að byrja í háskóla. Þetta fjarnám og þetta að vera alltaf heima það er bara íþyngjandi,“ segir Sigurþóra.

Vísir spurði Kristinn hvort hann vilji meina að áhyggjur sem ýmsir hafa viðrað, af framhaldsskólanemum, séu orðum auknar og skólastarfið í góðum gír?

„Já, en vil alls ekki gera lítið úr þeim sem glíma við erfiðleika. Legg áherslu á að hagsmunir nemenda eins og annarra í samfélaginu sé að ná niður smitum þannig að það sé hægt að opna samfélagið meira og verja síðan þann árangur.“

Kristinn segir þetta vissulega erfiða stöðu og nemendur sem eiga undir högg að sækja eru í erfiðari stöðu en áður. Stóra myndin er samt sú að meginþorri nemenda er við nám, líður þokkalega og þeir standa sig í flestum tilfellum mjög vel og eiga hrós skilið.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.