Innlent

„Held að fjármálaráðherra hafi farið öfugu megin fram úr“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Til nokkuð harðra orðaskipta kom á milli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns Viðreisnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Þorgerður Katrín spurði Bjarna hvort hann hefði áhyggjur af stöðu kvenna í Póllandi í ljósi dóms stjórnlagadómstóls landsins um að þungunarrof vegna fósturgalla stangist á við stjórnarskrá. 

„Ég geri mér vissulega grein fyrir því að þetta mál er viðkvæmt innan Sjálfstæðisflokksins,“  sagði Þorgerður og benti á að nokkrir þingmenn flokksins hefðu greitt atkvæði gegn þungunarrofsfrumvarpi heilbrigðisráðherra á síðasta ári. Þá sagði hún pólska stjórnarflokkinn Lög og réttlæti systurflokk Sjálfstæðisflokksins.

„Er ráðherra á þeirri skoðun að konur eigi algerlega tilneyddar að ljúka meðgöngu þrátt fyrir að ljóst sé að barn muni ekki lifa?“ spurði Þorgerður.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.Vísir/Vilhelm

„Þvílíkur þvættingur“

Bjarni sagði með ólíkindum að halda því fram að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu greitt atkvæði gegn þungunarrofsfrumvarpinu vegna þess að þeir vildu taka upp gildandi reglur í Póllandi.

„Það er verið að gefa það í skyn hér. Þvílíkur þvættingur, þvílíkur málflutningur. Það er algerlega með ólíkindum að hlusta á þetta, einhver ömurlegasta tilraun sem ég hef bara hlustað á lengi til að tengja Sjálfstæðisflokkinn við eitthvert hneykslismál út í Evrópu. Má ég biðja um að þetta sé aðeins á hærra plani?“ sagði Bjarni.

„Ég held að hæstvirtur fjármálaráðherra hafi farið öfugu megin fram úr rúminu. Þetta var einföld spurning,“ sagði Þorgerður og ítrekaði spurningu sína um hvort Bjarni hefði áhyggjur af stöðu kvenna og réttindaskerðingar þeirra í Póllandi.

Bjarni svaraði því til að hann hefði áhyggjur af stöðunni. „Ég biðst forláts en það hefur ekkert með málið að gera hvort Sjálfstæðisflokkurinn er í flokka samstarfi á vettvangi Evrópusamvinnu með einhverjum flokkum. Að það þýði að hann fylgi sömu stefnu og þeir í öllum málaflokknum. Þetta er bara ekki boðleg nálgun. Þetta er bara aum og ömurleg tilraun koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn út af einhverju máli sem er að gerast úti í Póllandi.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.