Anton Sveinn McKee og félagar í Toronto Titans enduðu í 7. sæti af liðunum tíu í Meistaradeildinni í sundi í Búdapest og komust því í úrslitakeppnina.
Anton safnaði alls 3.200 Bandaríkjadölum með frammistöðu sinni á fjórða mótinu sem Titans tóku þátt í, sem lauk í gær. Á mótunum fjórum safnaði hann 18.000 dölum, jafnvirði 2,5 milljóna króna, í þessari nýlegu atvinnumannadeild þar sem besta sundfólk heims kemur saman. Anton er fyrsti og eini Íslendingurinn til að keppa í deildinni.
Caeleb Dressel var sigursælastur í deildarkeppninni og safnaði jafnvirði 12,7 milljóna króna, og Lilly King kom næst með 11,4 milljónir.
Anton með fimmta mesta magn stiga í sínu liði
Úrslitakeppnin hefst á laugardaginn. Þangað komust átta lið sem keppa á tveimur fjögurra liða mótum, eftir að hvert lið keppti á fjórum mótum í deildarkeppninni. Öll mótin fara fram í Búdapest, þar sem Anton og aðrir sundmenn hafa verið í eins konar vinnusóttkví síðustu vikurnar og þurft að halda sig að mestu á sínu hótelherbergi.
Anton safnaði alls 87 stigum fyrir Titans í mótunum fjórum, og varð fimmti efstur af 32 liðsmönnum liðsins hvað stigasöfnun varðar.
Anton vann 200 metra bringusund í þriðja sinn á fjórða og síðasta mótinu, varð fjórði í 100 metra bringusundi í gær á 57,79 sekúndum, og fimmti í 50 metra bringusundi. Þá var hann í sveit Titans sem varð í 3. sæti í 4x100 metra fjórsundi.