Erlent

Fyrr­verandi þing­for­seti Kósovó hand­tekinn vegna gruns um stríðs­glæpi

Atli Ísleifsson skrifar
Á tímum stríðsins var Jakup Krasniqi talsmaður frelsishers Kósovó og er nú grunaður um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, að því er fram kemur í tilkynningu frá dómstól í Haag.
Á tímum stríðsins var Jakup Krasniqi talsmaður frelsishers Kósovó og er nú grunaður um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, að því er fram kemur í tilkynningu frá dómstól í Haag. EPA

Jakup Krasniqi, fyrrverandi forseti þings Kósovó, var handtekinn á heimili sínu í bænum Negrovc, skammt frá höfuðborginni Pristína, í gær. Hann er grunaður um að hafa gerst sekur um stríðsglæpi í Kósovó-stríðinu á árunum 1998 og 1999.

Hinn 69 ára Krasniqi var á árunum 2007 til 2014 forseti kósovóska þingsins, og þá gegndi hann tvívegis embætti forseta landsins til bráðabirgða á árunum 2010 og 2011.

Á tímum stríðsins var Krasniqi talsmaður frelsishers Kósovó og er nú grunaður um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni, að því er fram kemur í tilkynningu frá dómstól í Haag sem hefur rannsakað brot á tímum Kósovóstríðsins. Ekki hefur komið fram hvað segir nákvæmlega í ákærunni.

Valon Hasini, lögmaður Krasniqui, segir í samtali við AP að hann búist við að Krasniqui verði leiddur fyrir dómara innan skamms.

Dómstóllinn hefur síðasta árið beint sjónum sínum að fjölda áberandi stjórnmálamanna í Kósovó. Þannig sagði Ramush Haradinaj af sér embætti forsætisráðherra á síðasta ári eftir að ásakanir um stríðsglæpi beindust gegn honum.

Á þessu ári hafa fjölmargir, þeirra á meðal forsetinn Hashim Thaci, verið ákærðir vegna brota sem framin voru í stríðinu gegn Serbíu undir lok tíunda áratugarins.

Kósovó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008, en Serbar – og sömuleiðis Rússar og Kínverjar – hafa enn ekki viðurkennt sjálfstæði landsins. Ísland og fjölmörg önnur Vesturlanda hafa hins vegar viðurkennt sjálfstæði Kósovó.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×