Lífið

Eliza Reid skrifar bók um ís­lensku kven­skörungana

Sylvía Hall skrifar
Eliza Reid vinnur nú að bók sem kemur út árið 2022.
Eliza Reid vinnur nú að bók sem kemur út árið 2022. Vísir/Vilhelm

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, hefur undanfarið unnið að bók sem fjallar um jafnréttisbaráttuna hér á landi og afrek íslenskra kvenna á því sviði. Bókinni er ætlað að gefa jákvæða en raunsæja mynd af íslensku samfélagi.

Bókin ber titilinn Secrets of the Sprakkar: How the Extraordinary Women of Iceland Are Bringing Gender Equality Within Reach, sem myndi útleggjast á íslensku sem “Leyndarmál Sprakkana: Hvernig hinar ótrúlegu íslensku konur eru við það að ná kynjajafnrétti”.

Orðið sprakki er fínt og fornt orð, líkt og Eliza orðar það sjálf, og merkir kvenskörungur eða röskleikakona.

„Mér finnst gaman að geta stuðlað að því að þetta ágæta orð vakni til lífsins á ný, ef svo má segja. Hægt er að lesa aðeins meira um bókina með því að fylgja hlekknum hér að neðan. Ég vil leggja áherslu á að þótt ég voni að bókin veiti áhugaverða, skemmtilega, jákvæða og raunhæfa mynd af íslensku samfélagi vildi ég ekki skapa sjálfhverfa „Ísland best í heimi“ ímynd af jafnréttisparadísinni Íslandi,“ skrifar Eliza á Facebook-síðu sína.

Í undirbúningsvinnu sinni hefur Eliza tekið viðtöl við fjölda kvenna og mun einnig deila sinni eigin reynslu af því að vera íslensk kona með erlendar rætur.

Hún kveðst einstaklega spennt fyrir verkefninu, en stefnt er að því að bókin komi út vorið 2022. Útgefandi bókarinnar í Bandaríkjunum er Sourcebooks, stærsta bókaforlag Norður-Ameríku í eigu kvenna, og Simon & Schuster í Kanada.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×