Arsenal hélt loks hreinu á heimavelli með Rúnar Alex milli stanganna

Rúnar Alex var ekki í miklum vandræðum í sínum fyrsta leik fyrir Arsenal.
Rúnar Alex var ekki í miklum vandræðum í sínum fyrsta leik fyrir Arsenal. Mike Hewitt/Getty Images

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson hafði ekki beint mikið að gera í sínum fyrsta leik fyrir enska knattspyrnufélagið Arsenal. Liðið vann Dundalk örugglega 3-0 í annarri umferð Evrópudeildarinnar í kvöld.

Rúnar Alex er þar með fjórði Íslendingurinn til að leika með Arsenal.

Það voru ekki aðeins við Íslendingar sem vorum spennt að sjá Rúnar Alex í marki Arsenal í kvöld en goðsögnin David Seaman – fyrrum markvörður liðsins sem og enska landsliðsins – beið í ofvæni eftir að sjá íslenska markvörðinn leika listir sínar.

Gestirnir frá Írlandi byrjuðu ágætlega og áttu skot af löngu færi sem Rúnar Alex varði vel í horn. Hann greip hornspyrnuna sem kom í kjölfarið sem og aðra síðar í fyrri hálfleik. Þar með var verki hans í leiknum svo gott sem lokið en heimamenn tóku hægt og rólega öll völd á vellinum þrátt fyrir að eiga erfitt með að brjóta ísinn.

Stíflan brast svo á 42. mínútu þegar Edward Nketiah skoraði eftir hornspyrnu og aðeins tveimur mínútum síðar kom Joesph Willock Arsenal í 2-0 með góðu skoti innan vítateigs.

Staðan var því 2-0 í hálfleik og ef gestirnir höfðu gert sér einhverjar vonir um endurkomu í þeim síðari þá hurfu þær þegar aðeins hál mínúta eða svo var liðin. Nicolas Pepe skoraði þá þriðja mark Arsenal með góðu skoti fyrir utan teig.

Fleira markvert gerðist ekki í leiknum og lokatölur því 3-0 fyrir Arsenal sem er með tvo sigra eftir tvo leiki í B-riðli Evrópudeildarinnar.  Er þetta í fyrsta sinn sem Arsenal heldur hreinu á Emirates-vellinum í síðan liðið mætti Norwich City þann 1. júlí, síðan þá hafa liðið sex leikir.

Molde vann svo 1-0 sigur á Rapid Vín í hinum leik riðilsins.


Tengdar fréttir

Íslendingarnir léku í jafntefli | Zlatan klúðraði vítaspyrnu

Fjöldinn allur af leikjum er nú búinn í Evrópudeildinni í knattspyrnu. Íslendingalið CSKA Moskva gerði markalaust jafntefli á heimavelli og þá brenndi Zlatan Ibrahimovic af vítaspyrnu fyrir AC Milan og var tekinn út af í hálfleik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira