Real tapaði á heima­velli gegn löskuðu Shaktar liði

Anton Ingi Leifsson skrifar
Marcelo trúir ekki að stjörnumprýtt lið Real hafi tapað gegn unglingaliði Shaktar.
Marcelo trúir ekki að stjörnumprýtt lið Real hafi tapað gegn unglingaliði Shaktar. David S. Bustamante/Soccrates/Getty Images

Real Madrid tapaði 3-2 fyrir Shaktar Donetsk á heimavelli í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Átta leikmenn vantaði í liði Shaktar vegna kórónuveirunnar.

Úkraínumennirnir hafa heldur betur lent illa í kórónuveirunni og í markinu stóð til að mynda Anatoily Trubin. Hann lék sinn fyrsta leik gegn Thibaut Courtois sem hann er einmitt nefndur af liðsfélögum sínum.

Tete kom Shaktar yfir á 29. mínútu og fjórum mínútum síðar var staðan 2-0 er Raphael Varane skoraði sjálfsmark. Staðan var 3-0 á 42. mínútu er Manor Solomon skoraði eftir frábært samspil.

Algjör niðurlæging á heimavelli Real. Luka Modric minnkaði muninn á 54. mínútu með glæsilegu marki og Vinicius Junior var búinn að vera inn á í fimmtán sekúndur er hann kom boltanum í netið.

3-2 og Real virtist vera jafna metin í uppbótartíma er Frederico Valverde kom boltanum í netið en eftir skoðun í VARsjánni ákvað dómari leiksins, Srdjan Jovanovic, að dæma markið af vegna rangstæðu. Lokatölur 3-2.

Shaktar er því með þrjú stig í B-riðlinum en í riðlinum eru einnig Inter og Borussia Mönchengladbach.

Í hinum leiknum sem lokið er gerðu Salzburg og Lokomotiv Moskva 2-2 jafntefli. Eder kom Lokomotiv yfir en mörk frá Dominik Szoboszlai og Zlatko Junuzovic komu Salzburg yfir. Vitali Lisakovich jafnaði þó og þar við sat. Lokatölur 2-2.

Í A-riðlinum eru einnig Bayern Munchen og Atletico Madrid.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.