Erlent

Stefnir í metkjörsókn vestanhafs

Kjartan Kjartansson skrifar
Skilti vísar kjósendum að utankjörfundarstað í Norwood í Ohio.
Skilti vísar kjósendum að utankjörfundarstað í Norwood í Ohio. AP/Aaron Doster

Fleiri en fjórar milljónir Bandaríkjamanna hafa þegar greitt atkvæði utan kjörfundar í forseta- og þingkosningum sem fara fram eftir fjórar vikur. Aldrei áður hafa svo margir verið búnir að greiða atkvæði á þessum tímapunkti fyrir kosningar og stefnir nú í mögulega metkjörsókn.

Um fimmtíufalt fleiri hafa nú þegar greitt atkvæði en höfðu gert það mánuði fyrir kjördag árið 2016, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Þær tölur sem nú liggja fyrir eru frá 31 ríki.

Mörg ríki bjóða nú upp á rýmri utankjörfundaratkvæðagreiðslu og greiðari aðgang að póstatkvæðum en áður til að takmarka smithættu og mannmergð á kjörstöðum í kórónuveirufaraldrinum sem geisar enn. Þeim sem greiða atkvæði á kjörstað á kjördegi hefur einnig fækkað hlutfallslega í undanförnum kosningum.

Michael McDonald frá Háskólanum á Flórída sem stýrir verkefni sem heldur utan um kosningagögn segir að miðað við tölurnar um utankjörfundaratkvæði gæti kjörsókn náð allt að 150 milljónum manna, um 65% fólks á gjaldgengra kjósenda. Það yrði mesta kjörsókn frá árinu 1908.

Skoðanakannanir benda til þess að Joe Biden, frambjóðandi demókrata, hafi á bilinu 7-9 prósentustiga forskot á Donald Trump forseta á landsvísu. Munurinn er minni í lykilríkjum sem munu að líkindum ráða úrslitum um sigurvegara forsetakosninganna.

Trump forseti hefur um margra mánaða skeið hamast gegn póstatkvæðum sem hann heldur fram rakalaust að eigi eftir að leiða til stórfelldra kosningasvika. Því hefur talning póstatkvæða og reglur um þau orðið að heitum deilu- og dómsmálum í mörgum ríkjum í aðdraganda kosninganna í ár.

Vegna orðræðu forsetans gegn póstatkvæðum benda kannanir til þess að hlutfallslega mun fleiri demókratar en repúblikanar hafi óskað eftir því að greiða atkvæði í pósti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×