Íslenski boltinn

Þróttur skiptir um þjálfara í von um að bjarga sér frá falli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnar Guðmundsson er ekki lengur þjálfari Þróttar.
Gunnar Guðmundsson er ekki lengur þjálfari Þróttar. mynd/þróttur

Gunnari Guðmundssyni og Srdjan Rajkovic eru ekki lengur þjálfarar meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Þrótti Reykjavík. Liðið er í bullandi fallbaráttu í Lengjudeild karla.

Kemur þetta fram í tilkynningu á vefsíðu Þróttar. Ekki er beint gefið út að Gunnar og Rajkovic hafi verið reknir en hvergi kemur fram að ákvörðunin sé sameiginleg.

Munu Tómas Ingi Tómasson - sérfræðingur Stöðvar 2 Sport, Bjarnólfur Lárusson, Hallur Hallsson og Þórður Einarsson mynda teymi sem stýrir liðinu út tímabilið. Þá verður Jamie Brassington markmannsþjálfari en hann er einnig markmannsþjálfari meistaraflokks kvenna. 

„Stjórn knd. Þróttar hefur gert breytingu hjá mfl. karla sem verður til þess að þeir Gunnar Guðmundsson og Srdjan Rakjovic láta af störfum.  Gunnari og Rajko er þakkað óeigingjarnt starf. Jafnframt vill stjórn knd. óska þeim alls hins besta í framtíðinni.,“ segir í tilkynningu Þróttar.

Þróttur Reykjavík er í mjög slæmri stöðu í Lengjudeild karla þegar þrjár umferðir eru eftir. Liðið er með 12 stig ásamt Leikni Fáskrúðsfirði og Magna Grenivík.

Gunnar og Rajkovic tóku við Þrótti síðasta vetur eftir að þeir Þórhallur Sigurgeirsson og Halldór Geir Heiðarsson voru látnir taka poka sinn. Þá rétt hélt Þróttur sæti sínu í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×