Íslenski boltinn

Upp úr sauð á Leiknisvelli og lögregla kölluð til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Félagsheimili Leiknis við Austurberg.
Félagsheimili Leiknis við Austurberg. vísir/vilhelm

Lögregla var kölluð til eftir leik Leiknis/KB og Þórs á Leiknisvelli í B-deild 2. flokks karla í fótbolta á sunnudaginn. Þrjú rauð spjöld fóru á loft í leiknum og upp úr sauð að honum loknum. Þórsarar unnu leikinn, 2-3.

Leikmenn voru afar ósáttir við dómara leiksins sem óttaðist um öryggi sitt samkvæmt heimildum Vísis.

Á endanum var lögregla kölluð til vegna illdeilna og hótana. Þetta staðfesti Gunnar Hilmarsson aðalvarðsstjóri við Vísi í dag.

Oscar Clausen, formaður Leiknis, staðfesti að lögreglan hefði mætt á svæðið eftir leikinn en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið nema að það væri í vinnslu innanhúss hjá félaginu.

Þriðja brottvísun þjálfarans í sumar

Tveir leikmenn Leiknis voru reknir af velli sem og þjálfarinn Leon Einar Pétursson. Þetta var þriðja brottvísun Leons og annars leikmannsins í sumar og önnur brottvísun hins leikmannsins. Þeir eru báðir á átjánda aldursári.

Í fyrradag var annar leikmaðurinn var úrskurðaður í fimm leikja bann og hinn í þriggja leikja bann fyrir ofsalega framkomu. Leon fékk einnig þriggja leikja bann. Þá fékk Leiknir samtals 17.500 króna sekt frá KSÍ.

Að sögn Hauks Hinrikssonar, lögfræðings Knattspyrnusambands Íslands, var í tilviki Leons um að ræða „orðbragð eða látbragð sem var særandi, móðgandi, svívirðilegt“ en ofsalega framkomu í tilviki leikmannanna.

Leon fékk sjálfkrafa þriggja leikja bann vegna þriðju brottvísunar sinnar í sumar. Annar leikmannanna fékk sömuleiðis þriggja leikja bann vegna þriðju brottvísunar sinnar í sumar auk tveggja leikja fyrir ofsalegra framkomu. Hinn leikmaðurinn fékk tveggja leikja bann vegna annarar brottvísunar sinnar í sumar og einn leik til viðbótar vegna ofsalegrar framkomu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.