Erlent

Saka stjórn Maduro um glæpi gegn mannkyninu

Kjartan Kjartansson skrifar
Maduro forseti er ekki aðeins sagður hafa vitað af glæpum öryggissveita heldur hafa gefið skipanir um þá.
Maduro forseti er ekki aðeins sagður hafa vitað af glæpum öryggissveita heldur hafa gefið skipanir um þá. Vísir/EPA

Rannsakendur mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fullyrða að ríkisstjórn sósíalistans Nicolás Maduro, forseta Venesúela, sé sek um „svívirðileg“ brot sem falli undir skilgreiningu á glæpum gegn mannkyninu. Vísar þeir til morða, pyntinga, ofbeldis og mannshvarfa sem eiga sér stað í Suður-Ameríkulandinu.

Öryggissveitir í Venesúela hafa beitt stjórnarandstæðinga og almenna borgara kerfisbundnu ofbeldi, þar á meðal pyntingum, frá árinu 2014. Í skýrslu rannsóknarnefndar mannréttindaráðsins sem kom út í dag segir að markmið þess hafi verið að bæla niður andóf.

Maduro og innanríkis- og varnarmálaráðherrar hans hafi ekki aðeins vitað af þeim glæpum heldur hafi þeir gefið skipanir, samhæft aðgerðir og séð öryggissveitunum fyrir búnaði til að fremja þá, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Fjarri því að vera einangraðir verknaðir voru þessir glæpir samhæfðir og framdir í samræmi við stefnu ríkisins með vitun eða beinum stuðningi yfirmanna og háttsettra embættismanna ríkisstjórnarinnar,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Jorge Valero, sendiherra Venesúela hjá Sameinuðu þjóðunum, afskrifaði rannsóknina sem „fjandsamlega aðgerð“ sem væri liður í herferð Bandaríkjastjórnar í fyrra. Bönnuðu stjórnvöld í Caracas rannsakendum Sameinuðu þjóðanna að koma til landsins.

Á fimmta tug einstaklinga nafngreindur

Rannsakendurnir segja að öryggissveitir hafi iðulega komið vopnum fyrir á svæðum þar sem íbúar voru taldir hliðhollir stjórnarandstöðunni. Fulltrúar öryggissveita hafi síðan verið sendir þangað og þeir skotið fólk af stuttu færi, handtekið það, pyntað og drepið.

Í skýrslunni eru 45 einstaklingar sem eru taldir hafa bein tengsl við ofbeldið nefndir með nafni. Hvetja skýrsluhöfundar til þess að stjórnvöld í Venesúela dragi þá til ábyrgða og komi í veg fyrir frekari brot.


Tengdar fréttir

Verð­launa­fé sett til höfuðs for­seta hæsta­réttar Venesúela

Bandaríkjastjórn hefur sett fimm milljóna dala verðlaunafé til höfuðs hátt settum embættismanni í Venesúela. Getur hver sá sem veitir upplýsingar sem leiðir til handtöku og sakfellingar forseta hæstaréttar Venesúela, Maikel Moreno, getur gert tilkall til verðlaunanna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.