Innlent

Róbert segist ekki ætla að tjá sig frekar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Róbert Spanó og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Róbert Spanó og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/EPA

Róbert Spanó forseti Mannréttindadómstóls Evrópu segist ekki ætla að tjá sig frekar um heimsókn sína til Tyrklands. Róbert hefur verið gagnrýndur harðlega úr ýmsum áttum vegna heimsóknarinnar í vikunni.

Heimsókn Róberts til Tyrklands var í boði dómsmálaráðuneytis landsins. Hann heimsótti þar m.a. dómaraskólann í Ankara og hitti Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta í forsetahöllinni. Þá þáði Róbert heiðursnafnbót við Háskólann í Istanbúl, sem margir hafa tekið sérstaklega fyrir í gagnrýni sinni.

Þannig tók Kenneth Roth framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Human Rights Watch það sérstaklega fram í Twitter-færslu í morgun að Róbert hefði þegið nafnbót við „háskóla sem rak fjölda fræðimanna úr starfi á ólöglegan hátt“. Það grafi undan boðskap Róberts til Erdogan um að virða lög og reglu.

Fréttastofa leitaði viðbragða hjá Róberti vegna gagnrýninnar sem fjölmiðlar hafa tekið til umfjöllunar í dag. Róbert kveðst ekki munu tjá sig frekar um málið en vísar í ummæli sem höfð voru eftir honum í Fréttablaðinu á föstudag.

Þar segir Róbert að sterk rök hafi verið bæði með og á móti því að hafna heiðursnafnbótinni vegna ástandsins í Tyrklandi í ljósi þess að eftir valdaránstilraunina 2016 hafi tugir þúsunda dómara, lögmanna, blaðamanna, kennara og aðrir verið dæmdir í fangelsi eða vikið úr störfum sínum.

„Að hafna þessu hefði líka verið gagnrýnt harðlega í hina áttina og stjórnvöld sakað dómstólinn um að vera pólitískan,“ er haft eftir Róberti í Fréttablaðinu.

Þá hafi forverar hans í embætti forseta Mannréttindadómstólsins nýlega þegið sambærilega titla frá ríkjum á borð við Armeníu, Póllandi og Tékklandi. Í þeim tilvikum hafi ekki verið litið svo á að forsetarnir tækju efnislega afstöðu.


Tengdar fréttir

Gagnrýni rignir yfir Róbert

Heimsókn Róberts Spanó, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, til Tyrklands hefur verið gagnrýnd harðlega úr ýmsum áttum í vikunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×