Lífið

„Í minningunni var þetta algjörlega stórkostlegt“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Skin, söngkona Skunk Anansie, rifjar upp síðustu Íslandsheimsókn og segist spennt fyrir því að spila aftur í Laugardalshöll á þessu ári.
Skin, söngkona Skunk Anansie, rifjar upp síðustu Íslandsheimsókn og segist spennt fyrir því að spila aftur í Laugardalshöll á þessu ári. Getty/ SOPA Images

„Það er orðið allt of langt síðan síðast,“ segir Skin spennt þegar blaðamaður hringir í hana, en söngkonan mun halda tónleika hér á landi í október með hljómsveit sinni Skunk Anansie. 23 ár eru liðin frá síðustu tónleikum þeirra í Reykjavík.

„Í minningunni var þetta algjörlega stórkostlegt. Ég hafði aldrei komið til svona lands áður. Í samanburði við aðra staði í heiminum sem hægt er að halda tónleika á, þá er þessi frekar einstakur.“ Skin segir að í Íslandsferðum hafi hún í fyrsta skipti upplifað bjartar nætur.

„Mótorhjólamenn fylgdu okkur frá tónleikastaðnum sem var skemmtilegt. Þetta voru almennilegustu mótorhjólamenn sem ég hef nokkurn tímann hitt ef ég á að vera hreinskilin.“

Skunk Anansie hljómsveitin var stofnuð 12. Febrúar árið 1994 og höfðu þau því aðeins spilað saman í tæp þrjú ár þegar þau héldu sína fyrstu tónleika á Íslandi.

„Þetta voru mjög góðir tónleikar svo þegar ég sá Ísland á dagskránni núna þá varð ég mjög spennt.“

Hún segist hafa upplifað Íslandsheimsóknirnar þannig að þau ættu stóran aðdáandahóp hér á landi. Uppselt var á tónleikana og stemningin í Laugardalshöll var rafmögnuð. Skin segir að á þessum tíma hafi verið erfitt að átta sig á vinsældunum í borgum og löndum fyrir fram en þetta er auðvitað breytt í dag eftir komu samfélagsmiðla.

„Maður vissi það aldrei. Á þessum tíma mætti maður bara og vonaði það besta. Ef uppselt var á tónleikana þá vissi maður að þeir yrðu góðir, ef ekki þá var óvíst hvernig stemningin yrði. Þetta kom skemmtilega á óvart. Á þessum tíma vorum við líka á tónleikaferðalagi níu mánuði ársins og þetta var alveg einstök upplifun.“

Plötuumslag 25 ára afmælisplötunnar sem inniheldur öll stærstu lög Skunk Anansie.Mynd/Skunk Anansie

Heilluð af lóninu

Skunk Anansie kom aftur til Íslands nokkrum mánuðum eftir fyrstu tónleikana. Hljómsveitin hélt þá litla tónleika á þaki DV hússins þann 4. September, sem sýndir voru í beinni útsendingu á Stöð 2. Skin hafði steingleymt því uppátæki þegar blaðamaður nefndi það, en sagði að hugmyndin að því hafi ekki verið þeirra heldur hafi þetta verið gert svona fyrir sjónvarpið.

„Þetta var fyrsta landið sem við heimsóttum þar sem það var alltaf bjart. Við djömmuðum alla nóttina eftir tónleikana. Ég labbaði um göturnar og allir voru mjög svalir og ekki brjálaðir. Við fórum á milli bara og flökkuðum á milli staða, dönsuðum og kynntumst nýju fólki og skemmtum okkur. Við stoppuðum ekki lengi svo við vildum meðtaka þetta allt.“

Tónleikarnir í Reykjavík í haust eru hluti af evróputónleikaferðalagi Skunk Anansie og er miðasala nú þegar hafin.  Skin segist stundum vera í samskiptum við íslenska aðdáendur sína í gegnum samfélagsmiðla. Bláa lónið náði að heilla söngkonuna upp úr skónum í síðustu heimsókn og mun hún líklega reyna að heimsækja það aftur núna.

„Ég væri til í að fara þangað aftur og líka bara sjá hvernig allt hefur breyst síðan við heimsóttum landið síðast, 23 ár er langur tími. Það verður gaman að sjá hvað hefur breyst og svo væri skemmtilegt að fara að sjá aðrar hljómsveitir,“ svarar Skin aðspurð um það hvað hana langi að gera á Íslandi í haust.

Á leið aftur í upptökuver

Skunk Anansie heldur af stað í tónleikaherferð sína þann 17.júní og byrja þau á þremur sumartónleikum í Bretlandi. Reykjavík verður svo fyrsta stopp um haustið, þau spila í Laugardalshöll 24. október og næstu tónleikar eru strax þann 26. október. Það er því hugsanlegt að þau nái að stoppa eitthvað hér á landi fyrir tónleikana. Tónleikaferðalagið endar svo aftur í Bretlandi þann 10. desember.

„Við munum augljóslega vera með vinsælu lögin okkar en við erum að vinna saman alla næstu viku því við ætlum að vera með ný lög, nýjar smáskífur. Við erum líka að vinna að því að hanna nýja sviðsumgjörð.“

Skin segir að planið sé að fríska vel upp á sviðsmyndina en byggja samt út frá því sem þau voru með á síðasta ári. Aðspurð um það hvernig nýju lögin séu, svarar Skin hlæjandi að það sé ekki búið að taka þau upp svo hún þurfi að láta vita um það síðar.

„Eitt þeirra er með smá öðruvísi „vibe“ en svo er eitt sem er meira klassískt Skunk Anansie. Það er allavega eitt sem er ólíkt öllu öðru sem við höfum tekið upp held ég.“

Að hennar mati er tengingin á milli hljómsveitarmeðlimanna á sviðinu orðin enn betri með árunum.

„Núna erum við miklu afslappaðri. Við erum öll mjög góðir vinir því við höfum verið á tónleikaferðalögum í svo langan tíma. Við erum mun afslappaðri sem hljómsveit og lifum miklu meira í núinu og njótum augnabliksins og að vera í hljómsveitinni. Að finna hvernig það er að hafa verið í hljómsveit í 25 ár og að vera hér enn, því það er ekki algengt með evrópskar hljómsveitir.“

Skin segir að hljómsveitin nái enn jafn vel saman núna og þegar þau byrjuðu.Getty/ Xavi Torrent

Njóta velgengninnar

Skin segir að í dag séu þau séu afslöppuð, þakklát og styðji vel við hvert annað. „Allir eru komnir með stærra líf núna. Börn, fjölskyldur og margt annað sem við gerum fyrir utan Skunk Anansie. Við erum því að njóta augnabliksins meira. Áður vorum við alltaf á hraðferð en nú náum við að njóta velgengninnar miklu meira. Einnig að styðja við unga listamenn, sem er eitthvað sem við gerum mjög mikið af.“

25 ára afmælissafnplatan sem þau voru að senda frá sér, 25LIVE @25, inniheldur mörg af þeirra þekktustu lögum eins og Because of You, Charity, Weak og Hedonism.

„Við höfum aldrei áður gert „live“ plötu, þetta er alveg nýtt fyrir okkur. Við gáfum út órafmagnað efni fyrir svona tíu árum, en Skunk Anansie er þekkt fyrir að vera stór „live“ hljómsveit svo það var kominn tími á að við fögnuðum þeirri hlið af Skunk Anansie “

Í persónulegu uppáhaldi hjá Skin sjálfri, er lagið Charlie Big Potatoe.  Lagið var fyrsta smáskífan sem var gefin út frá þriðju plötunni þeirra, Post Orgasmic Chill, sem kom út árið 1999.

Ástin í New York

„Þetta er svo gaman núna og við skemmtum okkur svo vel. Þannig er bara andinn í hljómsveitinni. Við pössum að vera frábær á sviði og að njóta þess. Við njótum aðdáendanna og viðbragða þeirra við ákveðnum lögum.“

Skin segir að þetta sé „þeirra besti tími“ uppi á sviði svo aðdáendur hljómsveitarinnar hér á landi geta átt von á flottum tónleikum í haust.

Skin er 52 ára gömul og heitir réttu nafni Deborah Anne Dyer, en nafnið Skin myndaðist út frá því að í æsku var hún oft kölluð Skinny. Hún er þekkt fyrir brjálaða hæfileika, mikinn töffaraskap, kraftmikla sviðsframkomu og auðvitað fallega snoðaða höfuðið sitt. Skin er fædd í Bretlandi en hefur meðal annars búið á Ibiza en býr í dag að mestu í London og New York og flakkar mikið á milli borganna tveggja.

„Hinn helmingurinn minn er nefnilega í New York,“ útskýrir Skin. Kærastan hennar, Ladyfag, starfar sem skemmtikraftur og við viðburðarskipulagningu og margt annað skemmtilegt í Bandaríkjunum. Nýlega var tilkynnt að Skin væri að fara að gefa út bók um endurminningar sínar. Bókina skrifar hún með vinkonu sinni til fjölda ára, blaðamanninum Lucy O’Brien.

„Ég er að klára að skrifa hana núna og bókin verður fáanleg í september.“

 
 
 
View this post on Instagram

A post shared by skin_skunkanansie (@skin_skunkanansie) on Feb 17, 2020 at 9:04am PST

Sviðið öruggur staður núna

Í gegnum tíðina hefur Skin opnað sig um óöryggi sem hún upplifði á sínum yngri árum. Því fylgdi oft mikill sviðsskrekkur.  

„Ég er eiginlega komin yfir það. Í byrjun var ekki eðlilegur hlutur fyrir mig að vera í forsvari hljómsveitar og vera aðalsöngvari hennar. En því oftar sem þú gerir eitthvað, því meira sem þú æfir þig, því betri verður þú og því minna stressaður ertu og þú færð meira sjálfsöryggi. Nú er það öruggur staður fyrir mig, að standa á sviðinu og syngja lögin okkar. Þar líður mér vel. Svo lengi sem ég er ánægð með tónleikana, ljósin og sýninguna og öllum líður vel.“

Hún segir að það spili líka inn í þetta hversu gott samband er á milli hljómsveitarmeðlima og hvað allt flæðir vel hjá þeim þegar þau stíga saman á svið. Á meðal þeirra listamanna utan hljómsveitarinnar sem hafa haft mikil áhrif á Skin í gegnum árin er Grace Jones.

„Hún er ein af þeim sem ég hef virkilega litið upp til. Ekki endilega þegar við vorum að byrja, þar sem hún er með ólíkan hljóm en ég hef haft aðdáun á henni sem listamanni og sköpunargáfunni hennar, það sem er einstakt við rödd hennar og stíl. Ég elska hana.“

Nefnir hún einnig hljómsveitina Rage Against The Machine, sem tilkynntu líka á dögunum eigið 2020 tónleikaferðalag. Hljómsveitirnar eiga enn þann dag í dag mikið af sameiginlegum aðdáendum.

Skin er þekkt fyrir kröftuga sviðsframkomu og kemur því kannski mörgum á óvart að hún hafi þurft að kljást við mikinn sviðsskrekk í byrjun.Getty/ Katja Ogrin

Afmælissöngurinn í uppáhaldi

Ferill Skin hefur verið mjög áhugaverður og á meðan hljómsveitin fór í hlé í nokkur ár, gaf hún út tvær sólóplötur. Fleshwounds kom út árið 2003 og Fake Chemical State kom út árið 2006. Árið 2008 var hljómsveitin komin saman aftur og hafa þau lent í ótal ævintýrum saman síðan. Það er þó eitt ógleymanlegt augnablik sem stendur upp úr þegar Skin horfir til baka yfir sinn feril.

„Að syngja afmælissönginn fyrir Nelson Mandela með Stevie Wonder.“

Tilefnið var áttræðisafmæli Mandela sem haldið var í Suður-Afríku. Skin segir að þetta hafi verið eitt af þessum augnablikum sem hana hefði aldrei grunað að hún ætti eftir að fá að upplifa í lífinu.

„Hann er svo mikil goðsögn og svo mikilvægur hluti af sögunni. Þegar fólk horfir til baka eftir hundrað ár og skoðar það sem gerðist merkilegt í heiminum, þá mun fólk muna hann sem þennan einlæga mann sem áorkaði svo miklu í vegferð sinni í átt að friði. Að geta staðið þarna og boðið fram hina kinnina eftir að það var farið svo illa með hann í lífinu, að geta gert það að einhverju jákvæðu og stöðvað stríð. Það var stórkostlegt að fá að hitta hann og eyða smá tíma með honum.“

Skin segir að hún hafi gert margt skrítið og furðulegt á sínum ferli. Nýlega keppti hún í raunveruleikaþáttunum The Masked Singer, þar sem hún kom fram í búning í hverjum þætti og fengu dómarar og áhorfendur ekki að sjá hana fyrr en þátttöku hennar var lokið. Þar valdi Skin að syngja í andarbúning, hún sagði eftir að þættirnir voru sýndir að hún hafi tengt við þennan búning vegna þess að í æsku hafi henni liðið eins og „litla ljóta andarunganum“ við hlið fallegu systkina sinna.

„Ég hef komið fram á mjög skrítnum stöðum fyrir framan skrítið fólk,“ segir Skin án þess að vilja fara út í það neitt frekar.

Bönnuð fyrir að vera nasistar

Skin segir að furðulegasta uppákoman sem hún man eftir á tónleikaferðalögum Skunk Anansie hafi verið árið 1999 þegar heilt bæjarfélag hélt fyrir mistök að þau væru nasistahljómsveit. Upphafið var vegna staðreyndavillna í umfjöllun hjá dagblaði bæjarins en útkoman var vandræðalegasta útvarpsviðtal sem Skin hefur mætt í á ævinni.

„Þetta var fyrir tíma samfélagsmiðla. Við ætluðum að halda tónleika í suðurhluta Bandaríkjanna en daginn áður var staðsetningunni á tónleikunum breytt. Við fórum frá því að vera með uppselda tónleika á litlum stað yfir í að vera með tónleika sem var ekki uppselt á, inni á risastórum tónleikastað. Við skildum þetta ekki. Við fórum beint út úr tónleikarútunni inn á útvarpsstöð í viðtal og þar var bara þögn, við spurðum hvað væri í gangi og maðurinn sagði okkur þá að við værum mjög umdeild í bænum.“

Það hafði þá spurst út að þau höfðu gefið út lagið Little Baby Swastikka og fólk hafði augljóslega ekki kynnt sér textann. Einnig héldu bæjarbúar að söngkona sveitarinnar væri rasisti og því höfðu þau verið bönnuð frá upprunalegum tónleikastað. Það að Skin sé sköllótt hafði á einhvern hátt misskilist á leiðinni og orðið að því að hún væri „skinhead.“ Í þokkabót héldu einhverjir að hljómsveitin héti Skunk a natzi.

„Talandi um að misskilja allt saman,“ segir Skin og hlær.

„Þetta var svo skrítin reynsla og svo furðulegt útvarpsviðtal. Þetta kennir manni samt að ef fólk langar að trúa einhverju þá gerir það það bara. Enn þann dag í dag höfum við ekki spilað þar aftur, út af neikvæðninni gagnvart okkur.“

Skin er spennt að sjá hvernig Ísland hefur breyst á síðustu 23 árum. Hún ætlar nú samt að halda tónleikana á sama stað og velheppnaðir 1997 tónleikar í Laugardalshöll.Getty/Chiaki Nozu

Sækir í erfiðar aðstæður

Skunk Anansie er pólitísk hljómsveit á margan hátt og Skin hefur aldrei setið á skoðunum sínum. Hún er á sífelldu flakki og þegar blaðamaður talar við hana er hún stödd í London að vinna og skrifa bókina. 

„Þegar þú ert í hljómsveit, sérstaklega þegar þú hefur verið að gera þetta í 25 ár, þá er mikið um endurtekningar. Ég hef því alltaf verið manneskja sem gerir mikið af öðrum hlutum meðfram hljómsveitinni. Ég reyni alltaf að setja mig í erfiðar aðstæður því áskoranir eru spennandi hluti lífsins.“

Hún hefur því alltaf reynt að vera dugleg að skora á sjálfa sig og er óhrædd við það að fara út fyrir þægindarammann.  

„Að vera í hljómsveitinni er hluti af lífi mínu, en er ekki allt mitt líf.“

Skin stígur á svið í Laugardalshöll þann 24. október næstkomandi ásamt hinum meðlimum Skunk Anansie, þeim Martin „Ace“ Kent, Mark Richardsson og Richard „Cass“ Lewis.


Tengdar fréttir

Skunk Anansie á leið til Íslands

Breska rokksveitin Skunk Anansie heldur tónleika á Íslandi í haust. Tónleikarnir fara fram í Laugardalshöll, laugardagskvöldið 24. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×