Innlent

Rektor verði falið að endurskoða skrásetningargjald

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Til skoðunar er að hækka árlegt skrásetningargjald Háskóla Íslands sem nú er 75.000 kr. Á fundi Háskólaráðs kom fram að skrásetningargjaldið hefði ekki fylgt verðlagi. Væri það tengt verðlagi myndi gjaldið vera í kringum 104.000 kr. árið 2020. Gjöldin hafa ekki verið hækkuð síðan árið 2014.

Um þetta var rætt á fundi Háskólaráðs 6. Febrúar síðastliðinn en mbl.is fjallaði fyrst um málið. Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að hækkun gjalds, verði það niðurstaðan, gæti orðið til þess að hindra aðgengi að námi.

Eftir umræður Háskólaráðs um skrásetningargjaldið var tillaga samþykkt með átta atkvæðum að fela rektor að ræða málið við rektora annarra opinberra háskóla og mennta- og menningarmálaráðherra. Fulltrúar stúdenta lögðust þó gegn tillögunni.

Háskólaráð hvetur ríkisstjórn Íslands og Alþingi til að endurskoða fjármálaáætlun til næstu fimm ára og tryggja aukna fjármögnun til að meðaltali Norðurlandanna verði náð árið 2025.

Uppfært: í upphaflegri útgáfu fréttar kom fram að til skoðunar væri að hækka skrásetningargjaldið í 104.000 kr. en hið rétta er að skrásetningargjaldið væri 104.000 kr. ef gjaldið væri tengt verðlagi en svo er ekki. Beðist er velvirðingar á þessu. Fréttin hefur nú verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×