Fótbolti

Veðmál Guardiola næstum búið að kosta Manchester City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep á hliðarlínunni í gær.
Pep á hliðarlínunni í gær. Vísir/Getty

Manchester City vann magnaðan 2-1 sigur á Real Madrid á útivelli í gærkvöld er liðin mættust í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Pep Guardiola gerði óvæntar breytingar fyrir leik sem voru næstum búnar að kosta City.

Eins og þekkt er á Pep það til að ofhugsa hlutina þegar kemur að stórum leikjum í Meistaradeildinni. Var það upp á teningnum í gær er Manchester City stillti upp í 4-2-3-1 leikkerfi með Gabriel Jesus á vinstri vængnum og Bernardo Silva sem fremsta mann í hlutverki „falskrar níu.“

Þá kom mörgum á óvart að Sergio Kun Agüero hafi verið allan tímann á varamannabekk liðsins en hann lék á sínum tíma með erkifjendum Real í Atletico Madrid.

Skiptingin sem breytti leiknum

Þó City hafi mögulega haft ágætis tök á leiknum framan af þá var það ekki fyrr en Raheem Sterling kom inn af varamannabekk liðsins sem liðinu tókst að skora. Sterling kom inn af bekknum á 73. mínútu fyrir Silva. Jesus fór í kjölfarið upp á topp og enski landsliðsmaðurinn á vinstri vænginn. Þá var staðan 1-0 fyrir Real Madrid. 

Mark Real Madrid kom eftir mistök Nicolas Otamendi og Rodri um miðbik síðari hálfleiks. Það virtist því, sem svo oft áður, að Pep væri að ofhugsa leikplan sitt og breyta því óþarflega mikið þó svo að mótherjinn væri Real Madrid á útivelli. Ákvörðun hans að setja Sterling inn fyrir Silva og færa Jesus í stöðu fremsta manns snéri einvíginu hins vegar Manchester City í hag en Englendingurinn kom að báðum mörkum City á einn eða annan hátt.

Jesus jafnaði metin með góðum skalla á 78. mínútu eftir að vera kominn í sína hefðbundnu stöðu eftir frábæran undirbúning Kevin De Bruyne. Sterling hafði leikið boltanum inn í vítateig Real á De Bruyne. Belginn skoraði svo sjálfur síðara mark leiksins fimm mínútum eftir jöfnunarmarkið með marki úr vítaspyrnu eftir að Dani Carvajal braut á Sterling.

Leiðtogi Real missir af síðari leiknum

Sergio Ramos fékk svo beint rautt spjald er hann togaði létt í Jesus sem var að sleppa einn í gegn. Snertingin litlu minni en sú sem Brasilíumaðurinn átti í bakið á Ramos í fyrra marki Man City. Var þetta 26. rauða spjald Ramos í treyju Real Madrid og ljóst að hann missir af síðari leik liðanna sem fram fer á Etihad vellinum í Manchester þann 17. mars. 

Pep eftir leik

Eftir leik gaf spyrill BT Sport í skyn að taktískar breytingar Pep hefðu gengið fullkomlega upp. 

„Þetta var fullkomið plan þar sem við unnum leikinn,“ sagði Pep kíminn. 

„Það mikilvæga er hvernig við spiluðum. Við ræddum um það hvernig við ætluðum að vinna leikinn. Þetta er bara fyrsti hlutinn en frábær sigur samt sem áður,“ sagði Pep eftir leik.

Aðspurður út í að spila Jesus á vinstri vængnum.

„Þeir pressa hátt á vellinum svo við reiknuðum með því að svæðið til að sækja í væri út á vængjunum. Gabriel [Jesus] er fljótur, Riyad [Mahrez] líka sem og Raheem [Sterling],“ sagði Pep sem lagði greinilega upp með að sækja í svæðið sem bakverðir Madrid skilja eftir autt þegar þeir fara upp völlinn.

„Mér fannst við betri aðilinn í leiknum þegar þeir skora og mér fannst þeir betri aðilinn þegar við skorum okkar mörk en svona er bara Meistaradeildin, svona er fótboltinn.“

„Ég er mjög stoltur en þetta er bara fyrsta skrefið, þetta er ekki búið. Við getum samt notið kvöldsins en á sunnudaginn eigum við úrslitaleik,“ sagði Pep að lokum en Manchester City mætir Aston Villa í úrslitaleik Deildarbikarsins á sunnudag. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Pep og vandræði hans í Meistaradeildinni

Pep Guardiola er án vafa einn besti knattspyrnustjóri síðari ára. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að honum virðist fyrirmunað að vinna Meistaradeild Evrópu. Það er með öðru liði en Barcelona.

Stundum segir Pep okkur ekkert fyrr en að leiknum kemur

Pep Guardiola kom mörgum á óvart með liðsvali sínu og leikaðferð Manchester City gegn Real Madrid í kvöld en á endanum stóð City uppi sem sigurvegari, 2-1, í Madrid.Pep Guardiola kom mörgum á óvart með liðsvali sínu og leikaðferð Manchester City gegn Real Madrid í kvöld en á endanum stóð City uppi sem sigurvegari, 2-1, í Madrid.

Man. City í frábærum málum frá Madrid

Englandsmeistarar Manchester City unnu 2-1 sigur gegn Real Madrid á Santiago Bernabeu í kvöld og eru í kjörstöðu fyrir seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Sergio Ramos sá rautt í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×