Körfubolti

Martin með 80 prósent þriggja stiga nýtingu í síðustu þremur Euroleague leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson hefur verið magnaður fyrir utan þriggja stiga línuna eftir jól.
Martin Hermannsson hefur verið magnaður fyrir utan þriggja stiga línuna eftir jól. Getty/Mike Kireev

Martin Hermannsson átti enn einn stórleikinn í Euroleague deildinni í gærkvöldi þegar hann var með 19 stig, 8 stoðsendingar og 4 þrista í leik á móti efsta liðinu.

Martin hefur heldur betur raðað niður þristunum að undanförnu en í gærkvöldi bætti hann met sitt og Jóns Arnór Stefánssonar og varð fyrsti Íslendingurinn til að skora fjórar þriggja stiga körfur í einum leik í bestu deild í Evrópu.

Martin þurfti líka bara fimm tilraunir til að skora þessa fjóra þrista og bauð því upp á 80 prósent þriggja stiga skotnýtingu í leiknum í Berlín í gær.

Martin spilaði líka aðeins rétt rúmar 24 mínútur í leiknum sem gera 19 stig og 8 stoðsendingar hans enn merkilegri fyrir vikið.

Martin hefur náð að fóta sig vel í Euroleague deildinni og hefur bætt sig mikið á þessu tímabili. Það sést ekki síst á skotum hans fyrir utan þriggja stiga línuna.

Martin hitti „bara“ 22 prósent þriggja stiga skota sinna fram að jólum en hann setti niður 8 af 37 þriggja stiga skotum í fyrstu fjórtán leikjum sínum í Euroleague.

Martin hitti úr 2 af 4 þriggja stiga skotum sínum í leik á móti Kirolbet á öðrum degi jóla og var með átján stig í þeim leik.

Þessi leikur kveikti í Martin en hann hefur nýtt 49 prósent þriggja stiga skota sinna eftir jól og er á þeim tíma með 20 þrista í 11 leikjum eða næstum því tvo að meðaltali í leik.

Í síðustu þremur leikjum hefur Martin síðan sett niður 8 af 10 þriggja stiga skotum sínum sem er ótrúleg 80 prósent nýting en tveir af mótherjunum þremur voru tvö efstu liðin í Euroleague eða Anadolu Efes frá Istanbul og Real Madrid.

Leikurinn í gær var áttundi leikurinn hjá Martin Hermannssyni í Euroleague deildinni á þessu tímabili þar sem hann býður upp á 50 prósent eða betri þriggja stiga nýtingu.

Leikir Martin Hermannssonar í Eurolegue 2019-20 með 50% þriggja stiga nýtingu:

75% á móti Rauðu Stjörnunni 19. nóvember (3 af 4)

50% á móti Fenerbahce 6. desember (1 af 2)

50% á móti Kirolbet 26. desember (2 af 4)

50% á móti Rauðu Stjörnunni 17. janúar (3 af 6)

50% á móti Fenerbahce 30. janúar (2 af 4)

100% á móti Real Madrid 6. febrúar (2 af 2)

67% á móti Zenit St. Pétursborg 20. febrúar (2 af 3)

80% á móti Anadolu Efes 27. febrúar (4 af 5)


Tengdar fréttir

Sportpakkinn: Martin á radar stærri liða

"Þessi vika hjá Martin er ein glæsilegasta vika hjá íþróttamanni frá upphafi,“ segir Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta, um framgöngu Martins Hermannssonar í síðustu viku.

Tilþrifasyrpa Martins í stórleiknum í Pétursborg

Martin Hermannsson var maður leiksins þegar Alba Berlín vann mikilvægan sigur á Zenit í Pétursborg í Rússlandi á fimmtudagskvöld, í EuroLeague, sterkustu félagsliðakeppni Evrópu í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×