Sport

Óvinsæli kínverski Ólympíumeistarinn dæmdur í átta ára bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ástralinn Mack Horton neitaði að stíga upp á verðlaunapallinn með Sun Yang á síðasta heimsmeistaramóti.
Ástralinn Mack Horton neitaði að stíga upp á verðlaunapallinn með Sun Yang á síðasta heimsmeistaramóti. Getty/Visual China Group

Kínverski heims- og Ólympíumeistarinn Sun Yang hefur verið dæmdur í átta ára keppnisbann eftir að Alþjóðaíþróttadómstóllinn staðfesti að áfrýjun Alþjóðalyfjaeftirlitsins hafi átt rétt á sér.

Alþjóðasundsambandið hafði nefnilega hreinsað kínverska sundmanninn af ásökunum um ólöglega lyfjanotkun en Wada áfrýjaði þeirri ákvörðun til CAS, Alþjóðaíþróttadómstólsins.

Hinn 28 ára gamli Sun Yang fær því ekki tækifæri til að verja Ólympíumeistaratitilinn sinn á ÓL í Tókýó í sumar.



Sun Yang var sakaður um að mölva lyfjaflösku með blóðsýni sínu eftir rifrildi við menn sem lyfjaprófuðu hann í september 2018.

Sun Yang, móðir hans og fylgdarlið áttu einnig að hafa reynt að koma í veg fyrir lyfjaprófið og ástæðan var að þau töldu að þeir sem voru mættir til að framkvæma lyfjaprófið hafi ekki haft tilskilin réttindi. Sun hafði áður fengið þriggja mánaða dóm fyrir annað brot.

Alþjóðasundsambandið taldi hans vegar saklausan af öllu saman og hreinsaði hann af þessum ásökunum við litlar vinsældir í hreyfingunni. Sun Yang mætti síðan á HM í sundi í Suður-Kóreu í júlí í fyrra og vann þá tíunda og ellefta heimsmeistaratitil sinn á ferlinum.



Sun Yang var án efa óvinsælasti sundmaður mótsins þrátt fyrir gullverðlaunin. Ástralinn Mack Horton og Bretinn Duncan Scott neituðu meðal annars að deila með honum verðlaunapallinum.

Nú er ferill Sun Yang hins vegar svo gott sem á enda eftir þennan harða dóm. Hann verður orðinn 36 ára gamall þegar hann má keppa á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×