Innlent

Jarð­skjálfti að stærð 3,2 við Grinda­vík

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Grindavík með fjallið Þorbjörn í baksýn.
Grindavík með fjallið Þorbjörn í baksýn. Vísir/Arnar

Jarðskjálfti að stærð 3,2 varð klukkan 18:46 um fimm kílómetra vestnorðvestur af Grindavík. Nokkrar tilkynningar hafa borist Veðurstofunni um að skjálftinn hafi fundist í Grindavík og Bláa Lóninu.

Tveimur mínútum síðar varð skjálfti á sömu slóðum sem að mældist 2,6 að stærð.

Dregið hefur úr skjálftavirkni í grennd við Grindavík undanfarna daga en tæplega 400 skjálftar mældust þar í liðinni viku. Enn mælast þó smáskjálftar á svæðinu. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist áfram með virknni.

Vísbendingar eru um breytt mynstur í jarðskorpuhreyfingum en hægt hefur á landrisi þótt enn megi sjá gliðnun yfir svæðið. Í heildina hefur land risið yfir fimm sentímetra frá 20. janúar.

Líklegasta skýring á þessari virkni er kvikuinnskot á þriggja til fimm kílómetra dýpi rétt vestan við fjallið Þorbjörn. Líklegast er að virkninni ljúki án eldsumbrota. Næsti fundur vísindaráðs Almannavarna verður haldinn fimmtudaginn 13. febrúar.


Tengdar fréttir

Minni skjálftavirkni við Þorbjörn og lítið landris

Þetta er nú allt að róast. Ég myndi nú ekki segja að þetta væri búið, það eru alveg að koma inn skjálftar þarna og við sjáum alveg á Grindavíkurstöðinni að það er enn þá svolítil virkni en hún er mjög lítil þannig að við náum ekki að staðsetja þá, segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands




Fleiri fréttir

Sjá meira


×