Innlent

Al­manna­varnir hvetja Grind­víkinga til að gæta að lausa­munum vegna jarð­skjálfta­hrinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Grindavík með Þorbjörn í baksýn.
Grindavík með Þorbjörn í baksýn. Vísir/vilhelm

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra leggur áherslu á að íbúar Grindavíkur fari yfir heimili og vinnustaði hvað varðar hættu á óstöðugum hlutum, eins og hillum, myndum, vösum og öðru veggskrauti sem getur fallið vegna jarðskjálfta.

Almannavarnir beina þessum tilmælum til Grindavíkurbúa á Facebook-síðu sinni í kvöld í ljósi yfirstandandi jarðskjálftahrinu norðan Grindavíkur. Hrinan er afleiðing landriss síðustu daga. Eru íbúar hvattir til þess að kynna sér ítarlegar leiðbeiningar á heimasíðu almannavarna um varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta, hvernig skuli bregðast við í skjálftum og viðbrögð eftir skjálfta.

Þrír snarpir jarðskjálftar hafa mælst í kvöld nærri Grindavík, sá stærsti 4,3 að stærð klukkan 22:24. Einnig hafa fundist þó nokkrir eftirskjálftar á svæðinu en engin merki sjást um gosóróa.

Um er að ræða stærstu skjálfta sem mælst hafa á svæðinu frá því að skjálftahrina hófst þar 21. janúar síðastliðinn. Talsverð eftirskjálftavirkni er á svæðinu og búast má við að hún haldi eitthvað áfram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×