Fótbolti

Setti nýtt heimsmet í landsliðsmörkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christine Sinclair fagnar sigri með kandadíska landsliðinu.
Christine Sinclair fagnar sigri með kandadíska landsliðinu. Getty/Naomi Baker

Christine Sinclair bætti í nótt heimsmetið yfir flest mörk fyrir fótboltalandslið í karla og kvennaflokki þegar hún skoraði tvisvar í stórsigri Kanada á St Kitts og Nevis í forkeppni Ólympíuleikanna.

Sinclair var fyrir leikinn einu marki á eftir Abby Wambach og það tók hana aðeins 23 mínútur að skora tvö mörk og bæta heimsmetið. Kanada vann leikinn á endanum 11-0.

Sinclair er þar með komin með 185 mörk fyrir kanadíska landsliðið. Abby Wambach náði að skora sína 184 mörk í 256 leikjum en þetta var 290. landsleikur Christine Sinclair.

Þetta er ekki aðeins með hjá konunum því markahæsti karlinn er Íraninn Ali Daei með 109 mörk.Christine Sinclair spilaði sinn fyrsta landsleik sextán ára gömul árið 2000 og skoraði þá þrjú mörk í fyrstu ferð sinni á Algarve bikarinn. Fyrsta markið skoraði hún á móti Noregi 14. mars 2000.

Hún á líka metið yfir flest mörk á einum Ólympíuleikum síðan að hún skoraði sex mörk á ÓL í London 2012 en þar á meðal var þrenna í 3-4 tapi á móti Bandaríkjunum í undanúrslitunum.

Christine Sinclair hefur skorað 120 af mörkum sínum í vináttulandsleikjum (40) eða æfingamótum (80) en hún er með 65 mörk í keppnisleikjum þar af 10 á heimsmeistaramóti og alls 31 á Ólympíuleikum eða í forkeppni ÓL.

Christine Sinclair spilar væntanlega 300. landsleikinn sinn á árinu því hún ætlar að vera með á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.