Enski boltinn

Sjáðu hversu reiður Gary Neville var þegar Martial klúðraði dauðafærinu í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Neville og Jamie Carragher vinna báðir fyrir Sky Sports.
Gary Neville og Jamie Carragher vinna báðir fyrir Sky Sports. Getty/Michael Regan

Gary Neville er eins harður stuðningsmaður Manchester United og þeir gerast. Hann er líka „hlutlaus“ knattspyrnusérfræðingur Sky Sports á leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Sky Sports gerir mikið úr því að tveir aðal knattspyrnusérfræðingar þeirra, Gary Neville og Jamie Carragher, eru tengdir tveimur vinsælustu liðum deildarinnar sterkum böndum.

Jamie Carragher spilaði eins og flestir vita allan sautján ára feril sinn með Liverpool en Gary Neville spilaði með Manchester United í næstum tvo áratugi.

Félagarnir voru báðir mættir á Anfield í gær þar sem Liverpool tók á móti Manchester United.

Forráðamenn Sky Sports pössuðu líka upp á það að vera með myndavél á þeim alveg eins og að vera með myndavél á leiknum sjálfum.

Frakkinn Anthony Martial fékk besta færi Manchester United í seinni hálfleik og í raun kjörið tækifæri til að jafna metin í 1-1.

Anthony Martial komst í skotfæri í teignum eftir laglegt þríhyrningaspil við Andreas Pereira en þrumuskot hans fór yfir.

Gary Neville var allt annað en skemmt eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Gary Neville er hins vegar orðinn vanur því að losa sig snögglega við reiðina og pirringinn í vinnu sinni við að lýsa Manchester United leikjum eins og sést að aðeins nokkrum sekúndum síðar var hann búinn að leggja sitt faglega mat á klúðri Anthony Martial.



Tapið í gær þýðir að Manchester United er nú heilum 30 stigum á eftir erkifjendum sínum í Liverpool sem er svakalegur munur.

Þar fer saman ótrúlega glæsilega byrjun Liverpool liðsins og mikil óstöðugleiki hjá liði Manchester United.

United menn hafa reyndar staðið sig vel í leikjum á móti risaliðum deildarinnar en urðu í gær að sætta sig við sitt fyrsta tap á tímabilinu í slíkum leik.

Slakur árangur á móti lakari liðunum er aftur á móti aðalástæðan fyrir því hversu neðarlega liðið er í töflunni og hversu langt liðið er frá toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×