Innlent

Hefðu sent öll neyðar­­boðin sam­tímis ef um neyðar­til­­felli væri að ræða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Grindavík. Fjallið Þorbjörn er í baksýn en á honum er töluvert af fjarskiptabúnaði.
Frá Grindavík. Fjallið Þorbjörn er í baksýn en á honum er töluvert af fjarskiptabúnaði. Vísir/Arnar

Aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir að breytingar á váboðakerfi geti að einhverju leyti skýrt tímamismun á neyðarboðum sem send voru við prófanir á kerfinu í nágrenni Grindavíkur á mánudag. Hann bendir jafnframt á að tæknilausnir á borð við þessa geti aldrei verið fullkomnar heldur verði einnig að treyst á aðrar tegundir viðvörunar.

Óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna jarðhræringa vestan við fjallið Þorbjörn sem er í nágrenni Grindavíkur. Um þúsund manns mættu á íbúafund í Íþróttahúsinu í Grindavík vegna óvissustigsins, þar sem m.a. var kynnt rýmingaráætlun, kæmi til eldgoss.

Rýmingin verður boðuð með SMS-skilaboðum frá Neyðarlínunni 112. Skilaboðin verða eftirfarandi: „Yfirvofandi eldgos, yfirgefið Grindavík, hlýðið fyrirmælum lögreglu og björgunarsveitarfólks.“ Þá verða einnig leiðbeiningar um hvaða leið fólk eigi að fara frá Grindavík. Kerfið var prófað á mánudag og prufuskilaboð send til fólks á svæðinu.

Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.Vísir/Egill

Rætt var við Klöru Teitsdóttur íbúa í Grindavík í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á mánudag. Þar sagði hún að tengdamóðir sín, sem sat við hliðina á henni á fundinum, hefði fengið SMS frá Neyðarlínunni ellefu mínútum á undan sér. Klara sagði þetta valda sér áhyggjum.

Fyrst ræst sending í nýja kerfinu, svo í því gamla

Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis um umræddan tímamismun á sendingunum að váboðakerfi Neyðarlínunnar gangi nú í gegnum breytingar. Það sé í raun tvö kerfi eins og staðan er í dag.

„Tvö símafélög eru komin í nýtt kerfi, og eitt er enn í gamla kerfinu. Í gærkvöldi [á mánudag] var fyrst ræst sending í nýja kerfinu og svo í því gamla. Þetta skýrir að einhverju leyti tímamuninn. Ef um neyðartilfelli hefði verið að ræða hefði það verið gert samtímis.“ Þá bendir Tómas á að tæknilausnir á borð við þessar séu aldrei fullkomnar. Því þurfi einnig að treysta á aðrar tegundir viðvörunar.

„[…] þar sem inn í spila þættir eins og fólk sem slekkur á símum sínum, rafmagnslaus tæki, tæki sem fólk skilur eftir og svo mætti áfram telja og því þarf alltaf að treysta að nokkru leyti á nágrannavörslu og síðan bara sírenur og blikkandi ljós.“ 

Benedikt Ófeigsson, séfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfingu hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að nú væri að draga úr landrisi á svæðinu við Þorbjörn og Svartsengi. Hingað til hefur landrisið verið um 3–4 millimetrar á dag en í gær var það nánast ekkert.


Tengdar fréttir

Tveir skjálftar yfir þremur nærri Grindavík

Tveir skjálftar yfir þremur að stærð mældust nærri Grindavík í morgun. Samkvæmt töflu Veðurstofu Íslands yfir jarðskjálfta mældist annar klukkan 04:31 og var hann 3,5 að stærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×